Erlent

Biður minka­bændur inni­legrar af­sökunar eftir svarta skýrslu nefndar

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði á fréttamannafundi í morgun að ákvörðunin um að lóga öllum minkum í landinu í nóvember 2020 hafi verið nauðsynleg til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Myndin er úr safni.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði á fréttamannafundi í morgun að ákvörðunin um að lóga öllum minkum í landinu í nóvember 2020 hafi verið nauðsynleg til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Myndin er úr safni. AP

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur beðið minkabændur í landinu afsökunar á þeim skapraunum og sorg sem ákvörðun danskra stjórnvalda um að lóga öllum minkum landsins í kórónuveirufaraldrinum hafi valdið þeim. Hún segir ákvörðunina um að fella stofninn þó hafa verið nauðsynlega.

Rannsóknarnefnd danska þingsins um ákvörðunina skilaði skýrslu sinni í gær þar sem fram kom að málflutningur forsætisráðherrans á fréttamannafundi í 4. nóvember 2020 hafi verið villandi þegar hún tilkynnti að lóga ætti öllum minkum í landinu. Var það gert til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu.

Það var einnig niðurstaða nefndarinnar að Barbara Bertelsen, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu og einn nánasti samstarfsmaður Frederiksen, hafi gerst brotleg við lög og reglur embættismanna í málinu og að brotin séu svo alvarleg að grunnur sé fyrir ákæru. Þá er talið að fjöldi annarra embættismanna hafi einnig brotið reglur og lög í málinu og sömuleiðis hafi embættisfærslur manna í matvælaráðuneytinu einnig verið ámælisverðar.

Ákvörðun danskra stjórnvalda um að lóga öllum minkum í landinu, um sautján milljónir dýra, vakti gríðarlega athygli og olli miklu fjaðrafoki þegar ljóst var að ákvörðunin átti sér enga stoð í lögum. Rannsóknarnefndin sagði orð Frederiksen þann 4. nóvember 2020 hafa verið villandi, en var það niðurstaðan að það hafi ekki verið af ásetningi.

„Afsakið. Ég get ekki ímyndað mér hvernig hafi verið að vera í ykkar sporum. Þið misstuð ævistarf ykkar, og ég biðst innilegrar afsökunar á þeim skapraunum og sorg sem þetta færði ykkur. Þess vegna vil ég biðja ykkur afsökunar,“ sagði Frederiksen á fréttamannafundi í morgun. Hún sagði ákvörðunina þó hafa verið nauðsynlega, þar sem ábyrgð Danmerkur gagnvart umheiminum hafi verið mikil.


Tengdar fréttir

Danskir minkabændur ósáttir

Danmerkurstjórn fékk upplýsingar um að hún mætti ekki fyrirskipa að allir minkar í landinu yrðu drepnir meira en viku áður en Mette Frederiksen forsætisráðherra tilkynnti um fyrirskipun þess efnis.

Segir af sér vegna minka­málsins

Mogens Jensen, ráðherra matvæla-, sjávarútvegs- og landbúnaðarmála Danmerkur, hefur sagt af sér embætti vegna minkamálsins.

Krefjast þess að minkarnir verði grafnir upp

Þingmenn stjórnarandstöðunnar í Danmörku hafa kallað eftir því að milljónir minka, sem aflífaðir voru eftir að stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar fannst í þeim, verði grafnir upp og færðir annað.

Milljarða samkomulag í höfn um greiðslu bóta til minkabænda

Samkomulag er í höfn milli dönsku ríkisstjórnarinnar og meirihluta flokka á þingi um greiðslu bóta vegna minkamálsins svokallaða. Samkomulagið tókst loksins í kvöld eftir ríflega tveggja mánaða viðræður og hljóðar það upp á 18,7 milljarða danskra króna, eða sem nemur tæpum 396 milljörðum íslenskra króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×