Erlent

Vinkona Ásdísar Ránar á topp tíu lista FBI

Bjarki Sigurðsson skrifar
Dóttir Ásdísar, Ruja Ignatova og Ásdís Rán á kynningu fyrir OneCoin.
Dóttir Ásdísar, Ruja Ignatova og Ásdís Rán á kynningu fyrir OneCoin. Aðsend

Ruja Ignatova, stofnandi rafmyntarinnar OneCoin, hefur verið sett á topp tíu lista bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) yfir mest eftirsóttu glæpamenn heims. Ekki hefur sést til Ignatova síðan árið 2017.

Ignatova stofnaði rafmyntina OneCoin árið 2014 og fékk fjölda fólks til að kaupa myntina, þrátt fyrir að hún væri hvergi til. Rafmyntir eru ekki til nema að þær séu inni á svokölluðu „blockchain“ en OneCoin var aldrei til þar. Þegar lögreglan fór að rannsaka fólkið á bak við rafmyntina árið 2017 hvarf Ignatova sporlaust.

Hún hefur nú verið sett á lista FBI yfir mest eftirsóttu glæpamenn heims en hún er grunuð um að hafa svikið rúma fjóra milljarði dollara eða fjögur hundruð milljarða króna út úr fólki sem fjárfesti í myntinni. Ignatova er eina konan á lista FBI.

Athafnakonan og fyrirsætan Ásdís Rán var góð vinkona Ignatova fyrir hvarfið og býr hún til að mynda enn í íbúð vinkonu sinnar í Búlgaríu. Þær kynntust í Búlgaríu þegar þáverandi eiginmaður Ásdísar, Garðar Gunnlaugsson, spilaði fótbolta fyrir CSKA Sofia. Fjallað var ítarlega um samband Ignatova og Ásdísar í hlaðvarpsþættinum Eftirmálar í apríl á þessu ári.

Rætt var við Ásdísi í þættinum og segist hún þar ekki hafa heyrt frá vinkonu sinni síðan hún hvarf. Einhverjir telja þó að Ignatova hafi verið komið fyrir kattarnef en Ásdís trúir því að vinkona hennar sé enn á lífi.

„Það var fullt af fólki sem hefði getað drepið hana út af því hún var það valdamikil og það miklir peningar í gangi,“ sagði Ásdís í þættinum.

Bróðir Ignatova og lögmaður hennar hafa báðir verið dæmdir fyrir aðild sína að OneCoin en Ásdís, sem var nánasta vinkona Ignatova þegar hún hvarf, fékk aldrei að vita hvað var að gerast á bak við tjöldin.

Bandaríska alríkislögreglan hefur heitið hverjum þeim sem veitir vísbendingu sem leiðir að handtöku Ignatova hundrað þúsund dollara sem samsvarar rúmlega þrettán milljónum króna.

Ruja Ignatova hvarf sporlaust árið 2017.Bandaríska alríkislögreglan

Tengdar fréttir

Telur Ignatovu hafa flúið undan rannsóknum

Ásdís Rán Gunnarsdóttir, athafnakona og fyrirsæta, segist trúa því að gömul og góð vinkona hennar til margra ára, Ruja Ignatova, hafi látið sig hverfa til að sleppa við fangelsisvist á meðan rannsóknir gegn henni stæðu yfir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×