Innlent

Lok, lok og læs á hjólhýsasvæðið á Laugarvatni

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Allt þarf að vera farið af svæðinu á Laugarvatni fyrir næstu áramót.
Allt þarf að vera farið af svæðinu á Laugarvatni fyrir næstu áramót. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hjólhýsaeigendur á Laugarvatni verða að vera búnir að koma öllum sínum hýsum, pöllum og öðru í kringum hjólhýsin í burtu fyrir næstu áramót samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar. „Við erum sár og fólk er niðurbrotið“, segir formaður hjólhýsaeigenda á svæðinu.

Samþykkt var á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar í gær að engir leigusamningar yrðu endurnýjaðir við hjólhýsaeigendur á Laugarvatni og þeir þyrftu því að víkja af svæðinu með hjólhýsin og allt sem þeim fylgir sem allra fyrst og í allra síðasta lagi um áramótin.

„Svæðið eins og það er uppfyllir engan vegin kröfur, sem eru gerðar hvað varðar öryggi staða þar sem fólk dvelur,“ segir Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar.

Samhjól, Samtök hjólhýsaeigenda á Laugarvatni gerði Bláskógabyggð ýmis tilboð gegn því að fá að vera áfram á svæðinu, eins og að greiða allan kostnað vegna endurbóta á svæðinu en því var alfarið hafnað.

„Það er ekki verið að taka þessa á ákvörðun af því að sveitarstjórn vilji gera fólki eitthvað illt. Ástandið eins og það er þarna núna er bara ekki viðunandi, öryggi er ekki tryggt og sveitarfélagið ætlar ekki að fara í aðgerðir til að greiða kostnað við það,“ bætir Ásta við.

Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvernig er hljóðið í eigendum hjólhýsanna á Laugarvatni?

„Ég ætla bara að lýsa vonbrigðum og við erum sár. Fólk er bara niðurbrotið, þetta hefur gríðarleg andleg áhrif á fólkið. Líka það að það skuli vera annað hjólhýsasvæði risið þarna á sama tíma og það er verið að bola okkur í burtu úr sveitarfélaginu. Við töldum okkur skipta meira máli,“ segir Hrafnhildur Bjarnadóttir, formaður Samhjóls.

Og hér á Hrafnhildur við hjólhýsasvæðið í Úthlíð.

Og þú ert með regnhlíf og himnarnir gráta eða hvað?

„Já, þeir gráta með okkur og það er ekki í fyrsta sinn, sem þeir gera það og vonandi getur svo sólin skinið með okkur og sveitarstjórn og allir lifað í sátt og samlyndi.

Hrafnhildur Bjarnadóttir, formaður Samhjóls á Laugarvatni.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Fundargerð sveitarstjórnar þar sem hjólhýsamálið var m.a. tekið fyrir 29. júní 2022.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.