Innlent

Björgunarsveit kölluð út vegna tveggja slysa hjá Glymi

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Tvö útköll bárust Björgunarsveitinni vegna slysa við Glym nú síðdegis.
Tvö útköll bárust Björgunarsveitinni vegna slysa við Glym nú síðdegis. Vísir/Tryggvi

Útkall barst á Björgunarsveitum á Vesturlandi rétt fyrir klukkan þrjú í dag vegna göngukonu sem hrasaði og slasaðist á fæti á leið að Glymi í stórum gönguhóp. Skömmu síðar barst annað útkall vegna ferðamanns sem hafði runnið niður gil steinsnar frá fyrri slysstað. 

Þetta staðfestir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar. 

„Göngukonan er að öllum líkindum ekki brotin en mögulega með snúinn ökkla, við vitum það svo sem ekki fyrr en búið er að hlúa að henni. Björgunarsveitarfólk kom að henni rétt fyrir klukkan fjögur og mun nú bera hana niður um 400 metra,“ segir Davíð í samtali við fréttastofu.

Annað atvik kom upp á svipuðum slóðum fyrir mjög skömmu þar sem ferðamaður hrasaði og rann um tíu metra niður gilið 

„Hann virðist nú hafa komði sér upp úr gilinu af sjálfsdáðum og björgunarsveitarfólk er bara rétt ókomið að honum. Þannig það hljómar aðeins betur en það gerði í fyrstu þegar útkallið barst,“ segir Davíð.  

Þetta hafi gerst skammt frá fyrra atviki og fleiri hópar björgunarsveitarinnar kallaðir til í kjölfarið.

„Við sjáum svo hvernig ástandið er á manninum sem hrasaði niður gilið,“ sagði Davíð að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×