Innlent

„Sýnileikinn besta vopnið gegn hatrinu“

Bjarki Sigurðsson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
María Rut Kristinsdóttir (t.v) og Ingileif Friðriksdóttir eru meðal þeirra sem skipuleggja fundinn.
María Rut Kristinsdóttir (t.v) og Ingileif Friðriksdóttir eru meðal þeirra sem skipuleggja fundinn. stöð 2

Á fimmtudaginn fer fram samstöðufundur á Austurvelli til stuðnings hinsegin fólks í Noregi og fjölskyldum þeirra. Skipuleggjendur fundarins segja að fræðsla sé lykillinn að því að uppræta fordóma og að hatrið megi ekki sigra.

Tveir einstaklingar létu lífið í skotárás á hinsegin barnum London Pub í Osló í Noregi um helgina. Árásin er rannsökuð sem hatursglæpur og hefur maðurinn verið bendlaður við einn alræmdasta íslamska öfgamann Noregs.

Því verður blásið til samstöðufundar á Austurvell í fimmtudaginn.

„Maður sat svolítið eftir á laugardaginn með sorg í hjarta og fann fyrir varnarleysi. Hinsegin samfélagið á Íslandi er mjög sterkt og opið og við þurfum að sýna þennan samtaka mátt núna með því að koma saman á Austurvelli og sýna samstöðu. Bæði minnast þeirra sem létust í þessari hryllilegu árás og ekki síst senda styrk til þeirra sem særðust. Við verðum að sýna alvöru samstöðu vegna þess að við megum ekki láta hatrið sigra, við þurfum að láta kærleikann vera ofan á,“ segir María Rut Kristinsdóttir, stofnandi Hinseginleikans og einn skipuleggjanda fundarins.

María sjálf verður með ræðu á fundinum ásamt Ingileif Friðriksdóttur og Örnu Magneu Danks. Þá mun Páll Óskar Hjálmtýsson setja tóninn og taka lag.

„Við viljum krefjast þess að hinsegin fræðsla verði aukin á öllum stigum samfélagsins. Við erum að krefjast þess að sveitarstjórnir, borgarstjórn og Alþingi taki þessi mál föstum tökum og auki fjárútlát til þessa málaflokks. Til þess að uppræta fordóma verðum við að fræða, það er svona grunnstefið í þessu öllu saman. Svo er sýnileikinn besta vopnið gegn hatrinu,“ segir Ingileif sem einnig er skipuleggjandi fundarins.

Fundurinn fer fram á fimmtudaginn og verður hann settur klukkan 17.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.