Enski boltinn

West Ham kaupir Areola frá París

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alphonse Areola í leik gegn Eintracht Frankfurt á síðustu leiktíð.
Alphonse Areola í leik gegn Eintracht Frankfurt á síðustu leiktíð. EPA-EFE/NEIL HALL

Enska úrvalsdeildarfélagið West Ham United hefur fest kaup á franska markverðinum Alphonse Areola. Hann kemur frá París Saint-Germain en markvörðurinn var á láni hjá West Ham á síðustu leiktíð.

Areola þekkir vel til í Lundúnum en þessi 29 ára gamli markvörður var á láni hjá Fulham á þar síðustu leiktíð. Areola hefur verið leikmaður PSG allan sinn feril en hefur hins vegar verið ítrekað lánaður undanfarin ár.

Hann var lánaður til Lens í Frakklandi árið 2013 og ári síðar til Bastia. Árið 2015 fór hann til Spánar og lék með Villareal, árið eftir var hann á láni hjá Real Madríd en spilaði ekki mikið.

Það var svo árið 2020 sem hann var lánaður til Fulham og svo West Ham á síðustu leiktíð. Hann virðist kunna vel við sig í Lundúnum og hefur nú samið við Hamrana um að leika með liðinu. Talið er að kaupverðið nemi tæplega 13 milljónum evra.

Areola var varaskeifa fyrir Łukasz Fabiański á síðustu leiktíð en spilaði hins vegar alla bikar- og Evrópuleiki félagsins. Alls spilaði Areola 17 leiki á leiktíðinni. Gæti hann spilað enn fleiri á komandi leiktíð þar sem Fabiański er orðinn 37 ára gamall.

Areola er annar leikmaðurinn sem West Ham kaupir frá Frakklandi í sumar en miðvörðurinn Nayef Aguerd kom frá Stade Rennais á dögunum. Kostaði hann 35 milljónir evra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×