Innlent

Lögregla kölluð út vegna elds í tveimur bifreiðum við Esjustofu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ekki er vitað hvernig eldur kviknaði í tveimur bifreiðum við Esjustofu.
Ekki er vitað hvernig eldur kviknaði í tveimur bifreiðum við Esjustofu. Vísir/Vilhelm

Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru nokkuð fjölbreytt í gærkvöldi og nótt en hún var meðal annars kölluð á vettvang vegna elds í tveimur bifreiðum við Esjustofu rétt fyrir klukkan þrjú í nótt.

Engar upplýsingar liggja fyrir um eldsupptök en þegar búið var að slökkva eldinn voru bifreiðarnar fluttar af vettvangi. 

Skömmu áður var tilkynnt um líkamsárás í póstnúmerinu 112. Fórnarlamb árásarinnar reyndist hafa fengið sár á höfuðið sem mikið blæddi úr. Var hann fluttur á Landspítalann. Árásarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Fyrr um kvöldið var tilkynnt um þjófnað á rafmagnshlaupahjóli í póstnúmerinu 225 en sá sem hringdi varð vitni að því þegar ungur maður tók hjólið upp í bifreið og ók á brott. Lögregla stöðvaði bifreiðina skömmu síðar og sagðist ökumaðurinn í fyrstu eiga hjólið en játaði svo þjófnaðinn. Hjólinu var skilað til eiganda og 16 ára farþegi í bílnum sóttur á lögreglustöð af forráðamanni.

Rétt fyrir klukkan fjögur í nótt barst lögreglu síðan tilkynning um nytjastuld bifreiðar í póstnúmerinu 104. Sá sem tilkynnti þjófnaðinn taldi þjófinn hafa náð að teygja sig inn um glugga og ná lyklum að bifreiðinni. Hún fannst um það bil klukkustund síðar og var einn handtekinn grunaður um þjófnaðinn. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×