Innlent

„Fólk hefði ekki getað verið þarna mikið lengur“

Snorri Másson skrifar

Á annað hundrað björgunarsveitarmanna af öllu Suðurlandi og víðar að tóku þátt í einni umfangsmestu aðgerð síðari tíma á Vatnajökli í nótt. Hópi fjórtán göngumanna var bjargað úr virkilega erfiðum aðstæðum. Ástandið var orðið krítískt.

Það var tólf manna hópur pólskra kvenna ásamt tveimur leiðsögumönnum frá íslensku fyrirtæki sem lögðu af stað upp á Hvannadalshnjúk um miðja nótt aðfararnótt fimmtudags. Ætla má að hópurinn hafi verið kominn upp á topp um hádegi á fimmtudegi og svo var haldið aftur niður. 

Það var á leiðinni niður sem staðsetningarbúnaðurinn brást, hópurinn gat ekki haldið áfram og kallaði eftir hjálp.

„Fyrstu upplýsingarnar sem við fengum þá leit þetta út fyrir að vera frekar einfalt, þótt það sé ekkert einfalt þarna uppi. En fljótlega þegar sleðamennirnir koma upp að jökli og eru að græja sig þar, færist þetta í þá áttina að þetta verði frekar flókið,“ segir Jens Olsen, varaformaður Björgunarfélags Hornafjarðar.

„Þetta var hiti við frostmark, rigning, slydda og snjókoma, þannig að þetta voru ekki góðar aðstæður og skyggnið var bara ekki neitt,“ segir Jens.

Aðstæður voru virkilega krefjandi við björgunaraðgerðir á Vatnajökli í nótt.Aðsend mynd

Það er ekkert grín að koma fjórtán manns niður af jökli; sem gerði þetta tímafrekt. Klukkan þrjú í dag, um einum og hálfum sólarhring eftir að lagt var af stað, hafði öllu fólkinu verið komið niður úr fjalli og til Hafnar í Hornafirði.

„Fólk var orðið nokkuð bratt þegar það kom niður. En þegar það var komið að þeim uppi á jökli var fólkinu mjög kalt og ástandið var farið að verða nokkuð krítískt þarna uppi,“ segir Jens.

„Ég held að fólk hefði ekki getað verið þarna mikið lengur og ég held að það séu allir fegnir því að þetta hafi farið svona vel. Þetta hefði getað farið miklu verr.“

Næstu dögum ver hópurinn í að jafna sig eftir það sem margir telja eitt mesta björgunarafrek á jöklinum í langan tíma.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.