Umfjöllun, myndir og viðtöl: Ísland 2-2 Ísrael | Ísland á enn þá möguleika á toppsætinu eftir svekkjandi jafntefli

Valur Páll Eiríksson, Hjörvar Ólafsson, Sverrir Mar Smárason og Andri Már Eggertsson skrifa
Byrjunarlið Íslands í leiknum.
Byrjunarlið Íslands í leiknum. Vísir/ Hulda Margrét

Ísland gerði enn eitt jafntelið í Þjóðadeildinni þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Ísrael á Laugardalsvelli í kvöld. Ísland komst tvisvar yfir í leiknum en missti það niður í bæði skiptin. Eftir úrslitin í kvöld minnka líkurnar á því að vinna riðilinn.

Arnar Þór, þjálfari liðsins, gerði eina breytingu á byrjunarliðinu frá leiknum gegn Albaníu en Hákon Arnar Haraldsson kom inn á miðjuna í stað Ísaks Bergmanns Jóhannessonar.

Leikurinn fór rólega af stað fyrstu mínúturnar og þurfti dómari leiksins að stöðva leik tvisvar vegna meiðsla leikmanna. Það voru hinsvegar Íslendingar sem skoruðu fyrsta markið úr fyrsta færi leiksins. Uppskriftin var íslensk. Langt innkast frá Herði Björgvini Magnússyni, skallað áfram af Daníel Leó Grétarssyni á Jón Dag Þorsteinsson sem skoraði með hnitmiðuðum skalla.

Íslenska liðið fagnar marki Jóns Dags.Vísir/ Hulda Margrét

Aðeins tveimur mínútum síðar gerðist nákvæmlega það sama en nú var það Birkir Bjarnason sem var á endanum á því en skalli hans ekki nógu kraftmikill.

Íslenska liðið leit vel út framan af en um miðbik hálfleiksins fór ísraelska liðið að stíga ofar á völlinn. Þeir sköpuðu sér tvö góð færi en Rúnar Alex gerði vel í verja bæði þau skot. Arnór Sigurðsson fékk svo besta færi hálfleiksins á 23. mínútu leiksins. Boltinn vannst þá á miðjum vellinum og Hákon Arnar sendi Arnór einn gegn markmanni. Arnór lét Ofir Marciano, markvörð Ísrael, verja frá sér og Íslendingar leiddu áfram með einu marki.

Arnór Sigurðsson svekktur að hafa ekki komið Íslandi í 2-0Vísir/ Hulda Margrét

Ísraelar jöfnuðu metin á 35. mínútu með klaufalegu marki. Eli Dasa, hægri bakvörður Ísrael, komst þá inn í teig Íslands hægra megin og renndi boltanum út á Ramzi Safuri sem átti máttlaust skot sem stefndi framhjá áður en boltinn fór af Daníel Leó og í netið.

Mikil stöðubarátta átti sér stað það sem eftir lifði fyrri hálfleiks þar sem bæði lið reyndu að komast yfir. Hörður Björgvin átti svo loka orðið í hálfleiknum þegar hann skaut í þverslánna beint úr aukaspyrnu. Hálfleikstölur 1-1.

Ísrael hóf síðari hálfleikinn betur og sóttu hart að marki Íslands og komust nokkrum sinnum í góðar stöður en íslenska vörnin hélt. Það var svo, líkt í fyrri hálfleik, Ísland sem skoraði fyrsta mark hálfleiksins. Arnór Sigurðsson fékk þá frábæra sendingu inn fyrir vörn Ísrael frá Herði Björgvini Magnússyni. Arnór keyrði í átt að teignum og sendi svo fasta sendingu fyrir markið sem markvörður Ísrael sló út í teiginn. Þórir Jóhann var fyrstur á boltann og renndi boltanum í autt markið. Íslenska liðið aftur komið yfir.

HælspyrnaHulda Margrét

Sex mínútum síðar var Ísrael búið að jafna metin aftur. Dor Peretz átti þá skalla á fjærstöng eftir fyrirgjöf, um hálfan metra frá marki úr þröngri stöðu. Kemur boltanum á markið en Rúnar Alex nær að verja með hnjánum. Eftir endurskoðun myndbandsdómara er boltinn sagður hafa farið yfir línuna og annað jöfnunarmark Ísraels í leiknum staðreynd, 2-2.

Síðustu tuttugu mínútur leiksins reyndu bæði lið að skapa sér færi til þess að gera sigurmarkið. Íslandi tókst að skapa nokkrar fínar stöður en engin ákjósanleg marktækifæri. Þegar uppi var staðið varð niðurstaðan 2-2 jafntefli. Svekkjandi niðurstaða eftir að hafa komist tvisvar yfir í leik sem þurfti að vinnast til þess að eiga meiri möguleika á því að vinna riðilinn. Nú þarf Ísland að vinna Albaníu ytra og treysta á að Ísrael tapi gegn Albaníu heima.

Þórir Jóhann fagnar marki sínu í kvöld.Vísir/ Hulda Margrét

Af hverju varð jafntefli?

Íslenska liðið spilaði ágætan sóknarleik á köflum en kannski ekki alveg nógu stóran hluta af leiknum. Vörnin var fín allan leikinn og kom í veg fyrir það að Ísrael skapaði sér marktækifæri en það eru þessi tvö augnablik þar sem liðið virðist missa einbeitingu.

Vendipunkturinn er klárlega færið sem Arnór Sigurðsson fær í stöðunni 1-0 í fyrri hálfleik. Mark þar og við hefðum klárlega klárar stigin þrjú.

Hverjir voru bestir?

Markaskorararnir tveir áttu góða leiki. Þórir Jóhann lúsiðinn á miðjunni og Jón Dagur oft hættulegur á kantinum.

Arnór Sigurðsson var frábær fyrsta hálftímann en eftir það fjaraði undan honum.

Það er stígandi í leik Harðar Björgvins í hafsent með landsliðinu en hefði getað gert betur í fyrra markið Ísrael.

Hákon Arnar Haraldsson heldur áfram að stimpla sig inn sem byrjunarliðsmaður í þessu liði.

Hvað gerist næst?

Við förum til Albaníu í næsta landsleikjaglugga, 27. september. Fram að því þurfa leikmenn að einbeita sér að því að spila fleiri mínútur hjá félagsliðum sínum.

Fyrirliðinn Birkir BjarnasonHulda Margrét

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira