Sport

„Er ekki að fara í Lyngby en annars er ég opinn fyrir öllu“

Andri Már Eggertsson skrifar
Jón Dagur í leik kvöldsins
Jón Dagur í leik kvöldsins Vísir/Hulda Margrét

Jón Dagur Þorsteinsson, leikmaður A-landsliðs karla í fótbolta, var svekktur með þriðja jafnteflið í Þjóðadeild UEFA. Jón Dagur er samningslaus og sagði að það væri meðal annars áhugi á Englandi og Ítalíu.

„Þetta var fúlt, við fengum á okkur sjálfsmark og mér skilst í öðru markinu að það var ekki augljóst að boltinn hafi verið allur inni. Við áttum að drepa leikinn í fyrri hálfleik. Við vorum óheppnir í dag og þurfum að halda áfram,“ sagði Jón Dagur Þorsteinsson eftir leik.

Ísland gerði fyrsta markið í kvöld sem var ólíkt hinum tveimur leikjunum í Þjóðadeildinni þar sem Ísland lenti undir.

„Við vorum ákveðnir í að byrja leikinn betur þar sem við lentum undir í hinum tveimur leikjunum. Mér fannst við detta niður undir lok fyrri hálfleiks en annars skoruðum við tvö mörk og þurfum bara aðeins að laga varnarleikinn.“ 

Jón Dagur kom Íslandi yfir með skallamarki en það kom Jóni sjálfum á óvart að hann myndi skora með skalla.

„Þjálfarateymi Ísraels bjóst ekki við þessu og ég bjóst heldur ekki við þessu svo þetta var skemmtilegt.“

Jón Dagur er samningslaus og er hann opinn fyrir öllu en hann sagðist þó ekki að vera á leiðinni til Lyngby þrátt fyrir Twitter færslu Freys Alexanderssonar, þjálfara Lyngby.

„Ég er allavega ekki að fara í Lyngby, ég fullyrði það en ég veit ekki hvar ég enda. Það er áhugi á Englandi, Ítalíu og fleiri löndum. Ég er opinn fyrir öllu og vonandi fer þetta að koma í ljós,“ sagði Jón Dagur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×