Erlent

Miðju­banda­lag Macrons með flest þing­sæti eftir fyrstu tölur

Árni Sæberg skrifar
Emmanuel Macron og eiginkona hans Brigitte eftir að þau greiddu atkvæði í dag.
Emmanuel Macron og eiginkona hans Brigitte eftir að þau greiddu atkvæði í dag. Ludovic Marin/AP

Fyrri umferð þingkosninga fór fram í Frakklandi í dag. Miðjubandalag Emmanuels Macron Frakklandsforseta leiðir eftir fyrstu tölur með 25,2 prósent atkvæða en flest spáð þingsæti. Bandalag vinstri flokka fylgir fast á hæla miðjuflokkanna með 25,6 prósent atkvæða en öllu færri spáð þingsæti en bandalag Macrons.

Emmanuel Macron forseti vonar að flokkur hans í miðjubandalagi við aðra flokka nái áframhaldandi hreinum meirihluta á franska þinginu. 

Macron boðar skattalækkanir og almenna hækkun eftirlaunaaldurs úr 62 árum í 65. Bandalag Vinstri grænna og Kommúnistaflokksins undir forystu Jean-Luc Mélenchon boðar aftur á móti töluverðra hækkun lágmarkslauna, lækkun eftirlaunaaldurs niður í sextíu ár og frystingu á orkuverði til heimila.

Franska kosningakerfið er nokkuð flókið þar sem kosið er í tveimur umferðum. Þingsætum er ekki úthlutað eftir fylgi flokka á landsvísu heldur fylgi þeirra í einstökum héruðum og fer seinni umferð þingkosninganna fram eftir viku. Stjórnmálarýnendur í Frakklandi hafa spáð því að tæpur minnihluti greiddra atkvæða muni skila Macron nægilega mörgum þingsætum til að halda hreinum meirihluta, að því er segir í umfjöllun France24 um frönsku kosningarnar.

Þannig er miðjubandalaginu spáð 225 til 295 þingsætum en bandalagi Mélenchons aðeins 150 til 190. Macron þarf 289 þingsæti til að halda hreinum meirihluta á franska þinginu.

Elizabeth Borne, forstætisráðherra Frakklands, segir miðjubandalagið nú hafa eina viku til að undirbúa sig fyrir seinni umferð kosninganna. „Eina viku til að sannfæra, eina viku til að ná öflugum og skýrum meirihluta,“ segir hún.

Mélenchon gefur aftur á móti lítið fyrir það að byrjað sé að telja þingsæti svo snemma í kosningaferlinu og hvetur Frakka til að mæta á kjörstað í næstu viku, en kjörsókn í dag var með eindæmum lítil, aðeins 47,7 prósent.

„Í ljósi þessarar niðurstöðu, og þess einstaka tækifæris sem það veitir okkur til að hafa áhrif á örlög föðurlandsins, ákalla ég fólkið í landinu að yfirbuga hörmuleg stjórnmál meirihlutans, Macrons, á sunnnudaginn,“ segir hann.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.