Innlent

Við­bragð­­steymi myndað vegna stöðu bráða­þjónustu

Smári Jökull Jónsson skrifar
visir-img
Vísir/Vilhelm

Að frumkvæði heilbrigðisráðuneytisins og í samræmi við ráðleggingar landlæknis hefur verið myndað viðbragðsteymi um bráðaþjónustu í landinu. Fagráð Landspítalans sendi frá sér ályktun í dag þar sem lýst var yfir þungum áhyggjum af mönnun fagfólks á Landspítala

Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið, embætti landlæknis, Sjúkratryggingar Íslands, Læknavaktin, Samtök heilbrigðisfyrirtækja, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Vesturlands hafi að frumkvæði ráðuneytisins og í samræmi við ráðleggingar landlæknis myndað viðbragðsteymi um bráðaþjónustu í landinu.

Ástæðan er sú alvarlega staða sem uppi er innan bráðaþjónustunnar en í tilkynningunni segir ennfremur að orsakir þessarar slæmu stöðu séu margþættar en þyngst vegi skortur á heilbrigðisstarfsfólki og skortur á úrræðum fyrir aldraða, færniskerta og fleiri viðkvæma hópa.

Meðal þeirra aðgerða sem grípa á til eru samhæfing aðgerða og þétting samstarfs aðila innan heilbrigðiskerfisins, aukinn stuðningur við heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu og þá á að auka þjónustu bráðadagdeildar Landspítala og stækka aðstöðu þar.

Þá á að efla starfsemi bráðamóttöku á Heilbrigðisstofnunum Suðurnesja, Suðurlands og Vesturlands meðal annars með úrlestri mynd- og blóðrannsókna í samvinnu við Landspítala.

Einnig er tekið fram að bæta eigi ferla Landspítala til að stytta dvöl sjúklinga á bráðamóttöku spítalans. Hluti af því verkefni er að endurskoða meðferðarferla í öldrunarþjónustu og auka aðkomu fleiri sérgreina að þjónustu við sjúklinga á bráðamóttökunni. 

Tilkynningin kemur í kjölfar þess að fagráð Landspítalans sendi frá sér ályktun í dag þar sem þungum áhyggjum var lýst af mönnun fagfólks á Landspítala. Þar segir að starfsfólk vanti í nær allar fagstéttir sem hafi neikvæð áhrif á þjónustuna og geti skapað ógn við öryggi sjúklinga og starfsfólks.

Þá var skorað á stjórnvöld að styðja við Landspítala með öllum tiltækum ráðum svo hægt væri að tryggja viðeigandi þjónustu við sjúklinga.


Tengdar fréttir

„Það hefur alls ekki skort fjármagnið“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins tókust á um stöðuna í heilbrigðiskerfinu, á Alþingi í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×