Innlent

Sig­þrúður ráðin fram­kvæmda­stjóri Sið­menntar

Atli Ísleifsson skrifar
Sigþrúður Guðmundsdóttir hefur verið framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins undanfarin sextán ár.
Sigþrúður Guðmundsdóttir hefur verið framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins undanfarin sextán ár. Siðmennt

Sigþrúður Guðmundsdóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Siðmenntar. Hún tekur við starfinu af Siggeiri Fannari Ævarssyni sem var sagt upp störfum í lok apríl.

Í tilkynningu frá Siðmennt segir að Sigþrúður hafi verið framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins undanfarin sextán ár, og áður forstöðumaður félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, verkefnastjóri innleiðingar Olweusarverkefnisins og að auki setið í stjórnum ýmissa félagasamtaka. 

„Sigþrúður hefur háskólapróf í félagsfræði, mannfræði og jákvæðri sálfræði, auk kennsluréttinda á háskólastigi.

Helstu verkefni Sigþrúðar varða stefnumótun félagsins, almennan rekstur, mannauðsmál og samskipti við bæði stjórnkerfið og almenna félaga. Stjórn Siðmenntar telur Sigþrúði einstaklega vel hæfa til starfsins, enda hefur hún áralanga reynslu af stjórn og rekstri félagasamtaka og húmanísk lífsgildi að leiðarljósi. Stjórn Siðmenntar hlakkar til samstarfsins og býður Sigþrúði velkomna til starfa. Hún hefur störf 1. september.

Siðmennt er félag siðrænna húmanista á Íslandi. Tæplega fimm þúsund félagar eru í Siðmennt og er félagið sjötta stærsta lífsskoðunarfélagið á Íslandi og það allra stærsta ef litið er til aðeins veraldlegra lífsskoðunarfélaga. Helstu verkefni félagsins eru barátta fyrir veraldlegu samfélagi og auknum mannréttindum jaðarsettra hópa, þjónusta við félagsfólk og athafnir á lífsins tímamótum, þ.e. við nafngjöf, hjónavígslu, fermingu og útför,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×