Kane bjargaði stigi fyrir Englendinga með fimmtugasta landsliðsmarki sínu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Harry Kane er aðeins annar í sögunni til að skora 50 mörk fyrir enska landsliðið.
Harry Kane er aðeins annar í sögunni til að skora 50 mörk fyrir enska landsliðið. Martin Rose/Getty Images

Harry Kane reyndist hetja Englendinga þegar hann tryggði liðinu 1-1 jafntefli gegn Þjóðverjum í A-deild Þjóðadeildarinnar í fótbolta í kvöld.

Þjóðverjar virtust líklegri til að koma boltanum í netið framan af í fyrri hálfleik og fengu nokkur ákjósanleg færi til að taka forystuna. Eftir því sem leið á hálfleikinn varð meira jafnræði með liðunum og Englendingar náðu einnig að koma sér í hættulegar stöður.

Mikið var um tafir í fyrri hálfleiknum og því var átta mínútum bætt við. Þrátt fyrir þennan langa fyrri hálfleik náði hvorugt liðið þó að skora og staðan því enn 0-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Þýska liðið byrjaði síðari hálfleikinn af sama krafti og þann fyrri og það skilaði því að heimamenn tóku forystuna á 51. mínútu. Jonas Hofmann fékk þá boltann við vítateigslínuna og lét vaða á markið. Boltinn fór nokkuð beint á Jordan Pickford í marki Englendinga, en skotið var fast og Pickford réði ekki við það, staðan 1-0.

Englendingar færðu sig framar á völlinn eftir því sem líða fór á síðari hálfleikinn og sköpuðu sér nokkur góð færi til að jafna leikinn.

Það var þó ekki fyrr en að tæpar fimm mínútur voru til leiksloka að loksins dró til tíðinda þegar Harry Kane féll í vítateig Þjóðverja. Í fyrstu virtist sem ekkert yrði dæmt, en eftir ábendingar úr VAR-herberginu fór dómarinn sjálfur í skjáinn og dæmdi vítaspyrnu. Harry Kane fór að sjálfsögðu á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Þetta var fimmtugasta landsliðsmark Harry Kane á ferlinum og hann er því orðinn æst markahæsti leikmaður liðsins frá upphafi. Aðeins Wayne Rooney hefur skoraði fleiri, en hann skoraði 53 mörk á sínum landsliðsferli.

Niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli og Þjóðverjar og Englendingar verma því neðstu tvö sæti 3. riðils A-deildar. Þjóðverjar hafa fengið tvö stig úr tveimur leikjum, en Englendingar aðeins eitt.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira