Innlent

Tengsl milli þess látna og grunaðs morðingja

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögregla var kölluð að þessu húsi í Barðavogi í Reykjavík á áttunda tímanum í gærkvöldi. 
Lögregla var kölluð að þessu húsi í Barðavogi í Reykjavík á áttunda tímanum í gærkvöldi.  Vísir/Helena Rakel

Tengsl voru á milli mannsins sem lögregla telur að hafi verið myrtur í Barðavogi í Reykjavík í gærkvöldi, og þess sem lögregla hefur handtekið grunaðan um morðið. Lögreglan vinnur nú að því að ræða við hugsanleg vitni.

Lögreglu barst tilkynning um málið um klukkan hálf átta í gærkvöldi. Mikill viðbúnaður var á vettvangi og hafði lögregla girt götuna af beggja vegna hússins í Barðavogi þar sem morðið er talið hafa verið framið.

Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn í tengslum við rannsókn á málinu strax í gærkvöldi, grunaður um að hafa banað manni á fimmtugsaldri. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru tengsl á milli mannanna.

„Það er bara eitt af því sem við erum að skoða en það eru einhver tengsl þarna á milli,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu.

Lögreglan vinni nú að því að ræða við möguleg vitni að málinu.

„Það eru nokkrir einstaklingar sem við þurfum að ræða við.“

Er það fólk sem var á staðnum?

„Það er bæði það, og svo líka sem hefur einhverjar upplýsingar ef um aðdraganda er að ræða, það er bara það sem við erum að skoða,“ segir Margeir.

Einn grunaður

Margeir segir að búast megi við því að lögregla fari fram á gæsluvarðhald yfir þeim handtekna í dag. Hann er grunaður um að hafa verið einn að verki.

Ríkisútvarpið hefur greint frá því að lögreglu gruni að hinn látni hafi látist af völdum barsmíða með barefli. Lögregla vinnur nú úr þeim sönnunargögnum sem fyrir liggja í málinu, en Margeir vildi ekki tjá sig um hvers eðlis þau væru.

„Það er bara verið að vinna úr því sem við erum með. Svo kemur bara í ljós hvað það er,“ segir Margeir. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×