Þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs er Sveindís fastamaður hjá Wolfsburg, Þýskalandsmeisturum og einu besta liði Evrópu, auk þess að vera burðarás í landsliðinu.
„Já, eiginlega,“ svaraði Sveindís aðspurð í samtali við Vísi í apríl hvort hún hafi búist við að vera komin svona langt svona snemma á ferlinum.
„Þetta hefur alltaf verið markmiðið mitt. Ég sá Söru Björk [Gunnarsdóttur] í Wolfsburg og mér fannst það geðveikt. Ég hugsaði oft, vá það væri geðveikt að vera í Wolfsburg. Og þegar þetta tækifæri kom gat ég ekki sagt nei við því. Fyrir 3-4 árum var þetta alltaf markmiðið, að komast í topp félag.“
Sveindís hefur verið mjög áberandi síðustu árin, ekki bara inni á vellinum því hún hefur verið í auglýsingum fyrir fyrirtæki á borð við Cherrios og Nocco. Hún lætur athyglina ekkert á sig fá.
„Þetta hefur bara gengið vel. Ég á erfitt með að skoða fréttir um sjálfa mig og smelli oftast ekki á þær. Ég skoða mjög lítið ef það kemur mér við,“ sagði Sveindís.
„Þetta truflar mig mjög lítið og finnst þetta frekar bara jákvætt, að það sé mikil umfjöllun um kvennaboltann. Ég tek því bara fagnandi.“
Sveindís hefur leikið átján landsleiki og skorað sex mörk. Hún er á leið á sitt fyrsta Evrópumót með landsliðinu í næsta mánuði.