Íslenski boltinn

Þungavigtin: „Held að hann sé betri kostur en Heimir Hallgrímsson“

Þungavigtin skrifar
Valsmenn ku renna hýru auga til Arnars Grétarssonar.
Valsmenn ku renna hýru auga til Arnars Grétarssonar. vísir/diego

Slæmt gengi Vals og möguleg þjálfarabreyting hjá liðinu var meðal þess sem var til umræðu í nýjasta þætti hlaðvarpsins Þungavigtin.

Valur hefur tapað fjórum leikjum í röð, er ellefu stigum á eftir toppliði Breiðabliks í Bestu deild karla og dottið út úr Mjólkurbikarnum.

Heimir Guðjónsson situr í heitu sæti og samkvæmt Kristjáni Óla Sigurðssyni hafa Valsmenn hlerað þjálfara KA og kannað hvort hann hafi áhuga á þjálfarastarfinu hjá Val.

„Gárungarnir mínir voru að senda mér skilaboð að það væri búið að athuga hvort Arnar Grétarsson væri tilbúinn að hoppa suður yfir heiðar,“ sagði Kristján Óli sem telur að Arnar gæti komið Val í Evrópukeppni á næsta tímabili.

„Ef þeir fara í hann geta þeir hæglega gert það. Ég er ekki viss um að hann myndi segja já en hann elskar „cash“.

Klippa: Þungavigtin - Umræða um þjálfaramál Vals

Mikael Nikulásson er á öndverðu meiði og telur að Arnar myndi alltaf stökkva á möguleikann að þjálfa Val.

„Ef KA myndi hleypa honum yrði vélinni flýtt um svona tvo klukkutíma. Hann hleypur í burtu til Vals ef svo er. Ég held að hann sé betri kostur en Heimir Hallgrímsson. Hann náði stórkostlegum árangri með landsliðið en það er allt annað að þjálfa félagslið. Hvað hefur hann gert með félagslið?“ sagði Mikael.

Hlusta má á brot úr umræðu þáttarins hér fyrir ofan. Það má síðan nálgast allan þáttinn af Þungavigtinni á Spotify, Apple Podcasts og Tal.is/vigtin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×