Innlent

Segir skýringar ráð­herra á laga­grund­velli brott­vísana villandi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sigurlaug Soffía gagnrýnir orð Jóns Gunnarssonar um að með brottvísunum sé verið að fara að lögum. Hún telur það villandi framsetningu.
Sigurlaug Soffía gagnrýnir orð Jóns Gunnarssonar um að með brottvísunum sé verið að fara að lögum. Hún telur það villandi framsetningu. Samsett

Lögfræðingur sem starfað hefur sem talsmaður umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossinum segir það rangt hjá dómsmálaráðherra að verið sé að fylgja lögum við fyrirhugaðar fjöldabrottvísanir fjölda hælisleitenda. Nýtt útlendingafrumvarp ráðherra muni þrengja rétt hælisleitenda hér á landi til muna.

Til stendur að vísa hátt í 300 hælisleitendum úr landi, eftir langt hlé í kórónuveirufaraldrinum. Brottvísanirnar hafa víða mætta mótstöðu en Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur sagt að stjórnvöld séu einfaldlega að fylgja lögum við framkvæmd þeirra. Lögfræðingur með reynslu af málaflokknum segir það ekki rétt.

„Að mínu viti er það alveg klárt að það er engin lagaskylda sem mælir fyrir um að það skuli senda þennan hóp úr landi. Og í raun tel ég að það gangi þvert gegn þeim lögum sem eru í gildi í dag,“ segir Sigurlaug Soffía Friðþjófsdóttir lögfræðingur. Hún hefur starfað sem talsmaður hælisleitenda fyrir Rauða krossinn á Íslandi. 

Sigurlaug Soffía telur að gildandi lög og reglugerð sem sett var með stoð í lögunum nái utan um þann hóp sem senda á úr landi. Því sé ekki skylt að vísa fólkinu úr landi.

„Aftur á móti þá er það í samræmi við það útlendingafrumvarp sem ráðherra hefur lagt fram, og er til umræðu á þinginu núna. Samkvæmt því væri stjórnvöldum skylt að vísa fólkinu úr landi.“

Frumvarp ráðherrans þrengi rétt hælisleitenda

Sigurlaug segir að með nýju frumvarpi yrði réttur fólks sem fengið hefur vernd í öðrum löndum, til að mynda Grikklandi og Ítalíu, þrengdur verulega, óháð þeim aðstæðum sem fólkið bjó við í þeim löndum. Hún bendir þó á að frumvarpið sé ekki enn orðið að lögum.

„Mér finnst alvarlegt að hann sé að halda þessu fram á þennan hátt, áður en það er búið að samþykkja það frumvarp sem hann leggur fram. Af því það er fjarri sannleikanum að staðan sé svona og afar villandi framsetning að mínu viti,“ segir Sigurlaug.


Tengdar fréttir

Ríkis­stjórnar­sam­starfið ekki mikil­vægara en mann­úð

Formaður Ungra vinstri grænna segir ríkisstjórnarsamstarfið ekki mega trompa mannúð. Hún fagnar gagnrýni félagsmálaráðherra á framgöngu dómsmálaráðherra í brottvísanamálum - en ummæli hans komi of seint. Þá sé forsætisráðherra ekki nógu afdráttarlaus.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.