Innlent

Bregðast við fjölda­brott­vísun með nýju frum­varpi

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Hanna Katrín Friðriksson, formaður þingflokks Viðreisnar, Guðmundur Ingi Kristinsson, formaður þingflokks Flokks fólksins, Helga Valga Helgadóttir, formaður þingflokks Samfylkingar og Halldóra Mogensen, formaður þingflokks Pírata.
Hanna Katrín Friðriksson, formaður þingflokks Viðreisnar, Guðmundur Ingi Kristinsson, formaður þingflokks Flokks fólksins, Helga Valga Helgadóttir, formaður þingflokks Samfylkingar og Halldóra Mogensen, formaður þingflokks Pírata. visir/vilhelm

Þingflokkar Samfylkingarinnar, Flokks fólksins, Pírata og Viðreisnar munu leggja sameiginlega fram frumvarp til að bregðast við stöðu þeirra sem nú stendur til að senda úr landi með fjöldabrottvísun.

Í frumvarpinu er lagt til að nýtt ákvæði verði sett til bráðabirgða sem felur í sér að dráttur á málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem varð vegna COVID-19, verði ekki talinn á ábyrgð umsækjendanna sjálfra og því skuli taka umsóknir þeirra til efnislegrar meðferðar hafi þeir verið hér í tólf mánuði eða lengur. Frumvarpið er í yfirlestri og verður dreift á Alþingi á mánudaginn.

Þingflokkarnir leggja einnig til að umsækjendur sem sóttu um vernd á meðan heimsfaraldurinn stóð sem hæst og hafa verið hér á landi í átján mánuði eða lengur, fái dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Pólitísk ákvörðun stjórnvalda

Flutningsmenn telja að fjöldabrottvísunin sem hafi verið í undirbúningi af hálfu íslenskra stjórnvalda sé ekki lagalega nauðsynleg heldur verði slík framkvæmd pólitísk ákvörðun stjórnvalda. 

Með framlagningu frumvarpsins sé lögð til almenn lausn fyrir þennan tiltekna hóp fólks á flótta. Flutningsmenn telja óásættanlegt að tafir sem tengjast heimsfaraldrinum verði taldar á ábyrgð umsækjenda sjálfra, enda var það ekki markmið núgildandi laga, heldur framkvæmd sem stjórnvöld hafa tekið upp.

Nauðsynlegt að bregðast strax við

„Flutningsmenn frumvarpsins telja að með því sé verið að bregðast við fyrirætlunum stjórnvalda um að brottvísa einstaklingum og fjölskyldum sem hafa verið hér í lengri tíma vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi hafa verið í heiminum vegna heimsfaraldursins. Í þeim aðstæðum, líkt og mörgum öðrum þarf sértækar aðgerðir og því eru lögð til bráðabirgðaákvæði sem eingöngu ná til þess hóps sem hér hefur dvalið um langt skeið vegna heimsfaraldursins,“ segir í tilkynningu.

„Óvenjumargir umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa vegna faraldursins dvalið hér á landi um lengri tíma, þar á meðal börn og einstaklingar í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sem hafa vegna tímans byggt upp tengsl við landið. Það er nauðsynlegt að bregðast strax við þessum aðstæðum og tryggja það að við sendum ekki fólk, sem þarf á vernd að halda, af landi brott og í aðstæður þar sem öryggi þess og heilsu er ógnað.“


Tengdar fréttir

Vonbrigði að stjórnvöld ætli að hefja brottvísanir á ný: „Þetta er bara algjörlega óboðlegt“

Stjórnarandstaðan segir óboðlegt að stjórnvöld ætli að vísa hælisleitendum úr landi aftur eftir langt hlé í faraldrinum þar sem margir hafa fest rætur sínar hér á landi. Þingmaður Píratatelur að frumvarp um breytingar á útlendingalögum muni ekki verða samþykkt og þingmaður Samfylkingarinnar segir meirihluta þjóðarinnar ekki kæra sig um ógeðfellda útlendingastefnu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.