Innlent

„Ef það verður ekki komið í veg fyrir þessa ó­svinnu þá verður Al­þingi að grípa í taumana“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Vísir/Vilhelm

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að dómsmálaráðherra hafi það í hendi sér að koma í veg fyrir „Íslandsmet í fjöldabrottvísunum.“ Hann telur að þingið geti þurft að stíga inn og stöðva fyrirætlanir stjórnvalda um að vísa fjölda fólks frá landinu.

Rætt var við Jóhann Pál í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hann segir Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra nokkrar leiðir færar til að koma í veg fyrir brottvísanirnar.

„Hann getur gert það með reglugerðarbreytingum, hann getur gert það með leiðbeinandi tilmælum til stjórnvalda, stofnanna sem sinna þessu. Ef þetta er ekki gert, ef það verður ekki komið í veg fyrir þessa ósvinnu þá verður Alþingi að grípa í taumana,“ segir Jóhann Páll.

Hann tók til máls í ræðustól Alþingis skömmu fyrir kvöldfréttir, undir liðnum fundarstjórn forseta, þar sem hann kallaði eftir því að þingforseti og þingmenn úr öllum flokkum yrðu í viðbragðsstöðu.

„Myndu sýna ákveðinn sveigjanleika. Það eru nefndardagar fram undan og þingveisla seinna í vikunni. Ég held að það sé ekkert því til fyrirstöðu að hliðra aðeins til dagskránni ef þess þarf, til þess að stíga inn í þágu mannúðar. Af því að við getum ekki leyft þessu að gerast, það er bara þannig,“ segir Jóhann Páll í samtali við fréttastofu.

Hann segir eina leið að setja fram frumvarp um málið, önnur sé þingsályktun sem bindi hendur ráðherra.

„En best væri auðvitað bara að stjórnvöld gerðu þetta bara af eigin rammleik,“ segir Jóhann Páll.


Tengdar fréttir

Segir reglurnar túlkaðar þröngt og alls ekki af mildi og mannúð

Fyrirhuguð fjöldabrottvísun stríðir gegn kristnum gildum að sögn Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands. Til stendur að brottvísa til Grikklands hátt í þrjú hundruð hælisleitendum. Margir þeirra hafa verið hér um langt skeið vegna kórónuveirufaraldursins, fest rætur og myndað tengsl við land og þjóð.

Telur ekkert því til fyrirstöðu að leyfa fólkinu að vera

Formaður hjálparsamtaka telur ekkert því til fyrirstöðu að dómsmálaráðherra veiti fólki sem vísa á úr landi dvalarleyfi, eins og gert var í tilviki flóttafólks frá Úkraínu. Forsætisráðherra segir spurningum ósvarað um fyrirætlanir eigin ríkisstjórnar að senda fólk til Grikklands. Dómsmálaráðherra segist einungis vera að framfylgja lögum og reglum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.