Innlent

Ás­dís verður bæjar­stjóri

Árni Sæberg skrifar
Ásdís Kristjánsdóttir er næsti bæjarstjóri Kópavogs.
Ásdís Kristjánsdóttir er næsti bæjarstjóri Kópavogs. Vísir/Vilhelm

Ásdís Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, verður bæjarstjóri Kópavogs samkvæmt nýjum málefnasamningi flokksins við Framsókn.

Þetta tilkynnti Orri Hlöðversson, oddviti Framsóknar í Kópavogi, á blaðamannafundi í Gerðarsafni rétt í þessu.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn héldu meirihluta sínum í bæjarstjórn Kópavogs. Oddvitar flokkanna kynntu málefnasamning flokkanna á blaðamannafundi klukkan 15 í dag. Fundinn má sjá í spilaranum hér að neðan:

Orri mun skipa embætti formanns bæjarráðs. Þá mun embætti forseta bæjarstjórnar skiptast á milli flokkanna, þannig að hvor flokkur haldi embættinu helming kjörtímabils.

Áttaviti til árangurs

Yfirskrift málefnasamnings flokkanna er Áttaviti til árangurs. Í samningnum eru átta verkefni útlistuð sem flokkarnir ætla að leysa á kjörtímabilinu. Ásdís segir það markmið þeirra að leyfa bæjarbúum að fylgjast grannt með framvindu verkefnanna.

Meðal helstu markmiða flokkanna er ábyrgð í fjármálum bæjarins og segir Ásdís að þeir sjái ýmis tækifæri til að skapa rými til að lækka álögur á bæjarbúa og fyrirtæki. Þá verði einungis stofnað til skuldsetningar sem snýr að arðbærum fjárfestingum. 

Ásdís segir að vanda verði vel til verka í skipulagsmálum, sérstaklega þegar kemur að kynningu verkefna og samráði við bæjarbúa.

Hún segir bæinn munu setja markið hátt í skóla- og menntamálum. Meðal annars með því að stíga næsta skref í stafrænni þróun og fjárfesta í tækni og nýsköpun sem muni bæði bæta starfsumhverfi kennara og námsumhverfi barna.

Ásdís segir meirihlutann vera með raunhæfar lausnir í leikskólavandanum. Hann verði leystur með heimgreiðslum og dagvistunarúrræðum. Samhliða því munu flokkarnir vinna að því að bæta starfsumhverfi leikskólakennara til fá fleiri slíka til starfa.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.