Enski boltinn

Salah mun ekki yfir­gefa Liver­pool í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mo Salah verður áfram í Liverpool-borg.
Mo Salah verður áfram í Liverpool-borg. EPA-EFE/PETER POWELL

Mohamed Salah, stórstjarna Liverpool, hefur staðfest að hann muni ekki yfirgefa félagið í sumar. Samningur hans rennur út sumarið 2023. Sömu sögu er að segja af Sadio Mané.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Mo Salah í Bítlaborginni. Hann á rúmt ár eftir af samningi sínum við Liverpool og hefur ekki enn skrifað undir framlengingu.

Hinn 29 ára gamli Salah hefur verið orðaður við bæði París Saint-Germain sem og Real Madríd – liðið sem mætir Liverpool í úrslitum Meistaradeildar Evrópu á laugardaginn.

Hann hefur nú þaggað niður í þeim orðrómum að úrslitaleikurinn gæti verið hans síðasti fyrir Liverpool en það virðist þó alls óvíst hvort hann ætli að skrifa undir nýjan samning við félagið.

Eigendur Liverpool vilja ólmir halda Salah og Mané hjá félaginu en sá síðarnefndi gæti verið seldur í sumar fari svo að hann skrifi ekki undir nýjan samning. Hann mun tilkynna hvað framtíðin ber í skauti sér að úrslitaleiknum loknum.

Salah hefur verið frábær fyrir Liverpool í vetur, alls hefur hann skorað 31 mark og lagt upp 16 til viðbótar í 50 leikjum. Hann getur bætt við þann fjölda á laugardagskvöldið. 

Gæti það orðið þriðji titillinn sem Liverpool vinnur á leiktíðinni en félagið sigraði enska deildar- og FA-bikarinn. Þá endaði það aðeins stigi á eftir Englandsmeisturum Manchester City í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×