Íslenski boltinn

ÍA í 16-liða úrslit eftir nauman sigur gegn Sindra

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alex Davey, miðvörður ÍA.
Alex Davey, miðvörður ÍA. Vísir/Vilhelm

Fjórum leikjum í 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla var að ljúka nú rétt í þessu. Skagamenn þurftu að hafa fyrir hlutunum er liðið heimsótti 3. deildarlið Sindra, en ÍA vann 5-3 útisigur eftir að hafa lent undir í tvígang.

Abdul Bangura kom heimamönnum í Sindra í forystu strax á níundu mínútu leiksins áður en Steinar Þorsteinsson jafnaði metin fyrir Skagamenn stuttu fyrir hálfleik.

Ibrahim Sorie Barrie kom Sindra yfir á nýjan leik á 52. mínútu, en tíu mínútum síðar varð Gunnar Orri Aðalsteinsson fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og staðan því orðin 2-2.

Kaj Leo Í Bartalstovu kom ÍA yfir í fyrsta skipti í leiknum með marki á 67. mínútu áður en Guðmundur Tyrfingsson breytti stöðunni í 4-2, Skagamönnum í vil.

Ivan Eres minnkaði muninn dyeie Sindra þegar um tíu mínútur voru til leiksloka, en Gísli Laxdal Unnarsson gulltryggði 5-3 sigur Skagamanna með marki á 86. mínútu.

Þá vann Ægir frá Þorlákshöfn góðan 3-1 sigur er liðið heimsótti Hött/Huginn austur á land. Rafael Victor kom heimamönnum yfir úr vítaspyrnu snemma leiks, en Ágúst Karel Magnússon, Stefan Dabetic og Bjarki Rúnar Jónínuson sáu til þess að gestirnir fögnuðu 3-1 sigri.

Að lokum Vann Afturelding 3-2 sigur gegn Vestra eftir framlengdan leik og Selfyssingar höfðu betur gegn Magna frá Grenivík í vítaspyrnukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×