Innlent

Kannar hvort til­efni sé til að endur­skoða á­kvarðanir um brott­vísun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. Vísir/Sigurjón

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra skoðar hvort hægt sé að veita einhverjum úr hópi þeirra sem vísa á úr landi atvinnuleyfi. Kanna þurfi hvort aðstæður einhverra kalli á að ákvörðun um brottvísun verði endurskoðuð.

Fréttastofa ræddi við Guðmund Inga að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun, þar sem hann benti á að fólki af erlendum uppruna hefði fjölgað mjög á Íslandi síðustu ár og þörf væri á almennri endurskoðun á málaflokknum. 

Varðandi hópinn sem nú á að vísa úr landi sagði Guðmundur Ingi að verið væri að skoða hvort einhverjir í hópnum gætu fengið atvinnuleyfi frekar en að fara í gegnum verndarkerfið. 

Hlusta má á viðtalið við Guðmund Inga í heild sinni í spilaranum að neðan. 

„Þá er vilji til þess að kafa betur ofan í hver er samsetningin á þessum hópi, eru þarna einhverjar sérstakar ástæður sem gætu kallað á það að það yrðu einhverjar af þessum ákvörðunum endurskoðaðar? Hér var heimsfaraldur í gangi sem þýðir það að sumt af þessu fólki hefur verið hér talsvert lengi, náð í einhverjum tilfellum að festa rætur, verið með börn í skóla og svo framvegis. Þannig að ég held að út frá réttindum barna þurfi að horfa líka til slíkra atriða,“ sagði Guðmundur Ingi. 

Þarf að gerast hratt

Hann hefur þó ekki upplýsingar um hversu stór hópur væri þarna mögulega undir.

Þannig að það er kannski ekki öll von úti fyrir allt þetta fólk?

„Ég ætla ekki að vera með neinar yfirlýsingar um það. En eins og ég segi, það er verið að skoða nánar hvernig þessi hópur er samansettur.“

Þetta er náttúrulega akút mál. Erum við þá að tala um að komist niðurstaða í þetta á næstu dögum, vikum?

„Ég vonast til þess. Þetta er eitthvað sem þarf að gerast hratt, það er alveg rétt hjá þér.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.