Fótbolti

Ancelotti ekki reiður út í Kylian Mbappe

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe skellihlær hér á blaðamannafundi Paris Saint-Germain á Paris des Princes leikvanginum í París.
Kylian Mbappe skellihlær hér á blaðamannafundi Paris Saint-Germain á Paris des Princes leikvanginum í París. AP/Michel Spingler

Carlo Ancelotti er ekki í hópi þeirra sem úthúða ákvörðun franska knattspyrnumannsins Kylian Mbappe um að hafna samningi við Real Madrid og semja frekar aftur við Paris Saint-Germain.

Forseti Real Madrid var meðal þeirra sem hafa tjá sig um að Mbappe hafi svikið spænska félagið og að hann muni aldrei spila með Real Madrid á sínum ferli en það hefur verið draumur Mbappe.

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar á móti Liverpool hefur fallið aðeins í skuggann á fréttum um nýjan samning Mbappe ekki síst þar sem flestir héldu að hann væri að fara semja við Real liðið.

Mbappe skrifaði undir þriggja ára samning við PSG en reyndi að selja það á blaðamannafundi sínum að hann væri að elta spennandi verkefni en ekki peningana.

„Miðað við allt sem við þurfum að hugsa um þá hugsum við aldrei um leikmenn í öðru liðum,“ sagði Carlo Ancelotti á blaðamannafundi. Hann er ekki reiður út í Mbappe.

„Við berum virðingu fyrir öllum, virðum þær ákvarðanir sem þeir taka og við berum virðingu fyrir öðrum félögum. Við verðum engu að síður að vinna okkar vinnu og það er á hreinu hvað við þurfum að hugsa um núna og það er að undirbúa okkur vel fyrir úrslitaleikinn,“ sagði Ancelotti.

Brasilíski miðjumaðurinn Casemiro var með Ancelotti á blaðamannafundinum og tók undir orð hans.

„Allir taka sína eigin ákvarðanir. Allir gera það sem þeir vilja með sitt líf,“ sagði Casemiro.

„Ef Mbappé vill vera áfram í París þá verðum við að virða það. Við vitum að Madrid er besta félag í heimi og besti staður til að búa á em við verðum samt að virða hans ákvörðun, ákvörðun fjölskyldu hans og félagið PSG. Við óskum honum alls hins besta og við skulum vona að hann sé ánægður þar sem hann er,“ sagði Casemiro.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×