Innlent

Dagur bað fram­kvæmda­stjóra Grósku af­sökunar

Eiður Þór Árnason skrifar
Eitthvað fór úrskeiðis við skipulagningu blaðamannafundarins.
Eitthvað fór úrskeiðis við skipulagningu blaðamannafundarins. Vísir/Ragnar

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík boðaði í morgun til blaðamannafundar í Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýri til að tilkynna upphaf meirihlutaviðræðna flokksins við Samfylkinguna, Pírata og Viðreisn.

Þegar fréttamenn mættu á svæðið kom framkvæmdastjóri Grósku þó af fjöllum og sagði ekkert leyfi hafa verið gefið fyrir fundinum. Þegar Óttar Kolbeinsson Proppé fréttamaður hitti á Veru Antonsdóttur framkvæmdastjóra sagði hún að vanalega færu ekki fram pólitískir viðburðir í húsinu.

Þrátt fyrir mótbárur framkvæmdastjórans fór blaðamannafundur flokkanna fram á auglýstum stað. Dagur B. Eggertsson, sitjandi borgarstjóri og oddviti Samfylkingar, segir að óskað hafi verið eftir leyfi en það greinilega eitthvað misfarist.

Hringdi í rangan aðila

„Ég skal bara taka þetta á mig og biðja framkvæmdastjóra Grósku afsökunar. Við leituðum til framkvæmdastjóra Vísindagarða og héldum að við værum að fara rétta boðleið og töldum okkur vera með fullt leyfi,“ sagði Dagur undir lok blaðamannafundarins en Gróska tilheyrir svæði Vísindagarða Háskóla Íslands.

Gróðurveggurinn í Grósku vakti athygli.Vísir/Ragnar

„Það er dásamlegt að fá að vera hérna fyrir framan þennan græna og fallega vegg hér í þessu húsi sem er auðvitað miðstöð íslenskrar og reykvískrar nýsköpunar. Það eru ótrúlega margir spennandi hlutir að gerast hérna, og þar á meðal þetta,“ bætti Dagur við og vísaði til meirihlutaviðræðnanna. 

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, greip boltann á lofti og lagði til að svæðið yrði gert að nokkurs konar almenningstorgi.

„Er það ekki bara eitthvað sem við getum skoðað til lengri tíma, hvort allir geti ekki komið hingað og haldið blaðamannafundi?“ Borgarfulltrúar hafi nýlega farið í ferð til Helsinki í Finnlandi þar sem fólki standi til boða að halda alls konar fundi í ráðhúsi borgarinnar.

„Ég bara fleyti því hérna út en svo er jú kannski um ákveðna pólitíska nýsköpun að ræða að einhverju leyti og tækifæri og grósku og breytingar og alls konar spennandi hlutir fram undan,“ bætti Dóra við.

„Við skulum bara sjá hvort við náum saman áður en við verðum svona spennt fyrir því,“ skaut Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, þá inn í og uppskar hlátur borgarfulltrúa áður en hann sleit blaðamannafundinum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×