Innlent

Fátt virðist geta komið í veg fyrir meirihluta BSPC í borginni

Jakob Bjarnar skrifar
Einar Þorsteinsson og Dagur B. Eggertsson. Afar vel fór á með fulltrúum flokkanna fjögurra sem eru að hefja viðræður um meirihlutasamstarf í borginni. Ekki tókst að kreista neitt uppúr þeim um hver verði næsti borgarstjóri þó mikið væri til þess reynt á nýafstöðnum blaðamannafundi.
Einar Þorsteinsson og Dagur B. Eggertsson. Afar vel fór á með fulltrúum flokkanna fjögurra sem eru að hefja viðræður um meirihlutasamstarf í borginni. Ekki tókst að kreista neitt uppúr þeim um hver verði næsti borgarstjóri þó mikið væri til þess reynt á nýafstöðnum blaðamannafundi. Vísir/Ragnar Visage

Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknarflokksins í borginni boðaði til blaðamannafundar í Grósku í Vatnsmýri ásamt oddvitum Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar.

Þar var tilkynnt að þau hafi ákveðið að efna til viðræðna um meirihluta í borgarstjórn. Afar vel fór á með þeim sem þar töluðu. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði að í samtölum þeirra í milli hafi ríkt mikill málefnalegur samhljómur, traust og trúnaður; það væri verið að leggja upp í nýtt tímabil. „Ég er mjög ánægður og bjartsýnn og hlakka til þess að verja næstu dögum með þessu ágæta fólki að tala um borgina okkar.“

Ríkur samstarfsvilji

Fram kom á fundinum að tímarammi sá sem litið er til séu tvær dagsetningar en umboð fráfarandi borgarstjórnar rennur út 1. júní, og fyrsti fundur nýrrar borgarstjórnar verður þann 7. Dagur sagði að ekki stæði til að setja óþarflega langan tímaramma og verkáætlun verður lög niður í dag eða á morgun.

Þórdís Lóa, oddviti Viðreisnar, sagðist til í breytingar og að skýr málefnaleg samstaða væri milli flokkanna um aðgerðir í samgöngu-, húsnæðis- og skipulagsmálum. Vísir/Ragnar Visage

Nú hefur ekki tíðkast að boðað sé sérstaklega til blaðamannafundar til þess að tilkynna um viðræður og það var einmitt spurning sem fulltrúi fréttastofunnar bar upp, hvers vegna blaðamenn væru boðaðir af því tilefni?

„Mér þótti mikilvægt að gefa fjölmiðlum kost á að spyrja spurninga,“ sagði Einar. Hann sagði að skorað hafi verið á þá Framsóknarmenn að taka af skarið. „Ég sé samhljóm milli þessara flokka í ýmsum málum,“ sagði Einar og nefndi að upplegg síns flokks hafi verið tími til breytinga. Hann sagðist fara með það í viðræðurnar og nú sé það samtal hafið. „Nú er að sjá hvort vilji sé fyrir hendi og ég fæ ekki betur séð eftir samtöl að svo sé; ríkur vilji til samstarfs.“

Ekkert fæst uppgefið um hver sest í borgarstjórastólinn

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar sagði að nú væri nýtt kjörtímabil að hefjast og þau í Viðreisn væru til í breytingar. „Skýrt í okkar huga að við erum til í breytingar. Hefja viðræður á miðjunni.“

Dóra Björt, oddviti Pírata, sagði það kost að mynda fjögurra flokka meirihluta. Fólki þyrfti þannig að tala sig að niðurstöðu og það væri lýðræðislegt.Vísir/Ragnar Visage

Blaðamenn reyndu að kreista út úr fulltrúum flokkanna hver yrði borgarstjóri en höfðu ekki erindi sem erfiði. Dagur sagðist ítrekað hafa nefnt að hann gengi ekki til þessara viðræðna með neina úrslitakosti að leiðarljósi: „Nú förum við í að ræða málefnin og verkaskiptinguna í lokin,“ sagði borgarstjóri.

Þórdís Lóa var spurð hvers vegna Viðreisn, sem skilgreinir sig til hægri, hafi ekki skoðað möguleika á samstarfi flokka sem skilgreina sig einnig sem slíka. „Viðreisn er nútímalegur hægrisinnaður miðjuflokkur,“ sagði Þórdís Lóa. Hún sagði Viðreisn vera meira á miðjunni og flokkurinn sé í viðræðum út frá þeim málefnum sem þau lögðu áherslu á í kosningabaráttunni: „Þar teiknuðust upp skýrar línur, samgöngu-, skipulags- og húsnæðismálum.“

Breytingar og breytingar

Gengið var á Einar með það hvort ekki væri erfitt að teknu tilliti til slagorðs um breytingar að ganga til þessara viðræðna flokka sem hafa verið við stjórn í borginni. Þar hafi verið skýrskotað til breytinga á forystu. Einar sagðist telja að borgarbúar hafi aðallega kosið út frá málefnunum. Vissulega breytingum á forystu en þessar breytingar sneru þó einkum og aðallega að ýmsum velferðarmálum svo sem húsnæðismálum. 

Einar, oddviti Framsóknarflokksins, sagði það vissulega rétt að skírskotað hafi verið til breytinga í forystu borgarinnar í kosningabaráttunni. En hann taldi þó að kjósendur hafi fremur litið til málefnanna en þess hver væri í hvaða stólum.Vísir/Ragnar Visage

„Það held ég að hafi ráðið úrslitum þegar kjósendur greiddu atkvæði,“ sagði Einar og ítrekaði að hann teldi afarkosti um að Framsókn fengi borgarstjórastólinn ekki skynsamlega. Mikilvægt væri að ræða málefnin fyrst.

Þá var spurningu beint til borgarstjóra, sem hefði hvað gleggsta yfirsýn yfir málefni borgarinnar, hvaða mál hann teldi að gætu orðið erfið í viðræðunum? Dagur sagði að þau væru að hefja viðræðurnar. Flestir flokkanna hafi sett fram skýra málefnasýn og þar eigi flokkarnir fjórir samleið. Hann sagðist ekki kvíða neinu í þeim efnum. „Þetta eru ekki eins flokkar og galdurinn felst í því að ná saman um það sem mestu skiptir.“

Málefnin fyrst og svo verður stólum úthlutað

Á fundinum var bent á að sá meirihluti sem til stæði að mynda hefði rúman meirihluta, hvort ekki væri einum ofaukið, kannski Viðreisn?

Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata varð til svara og sagðist telja að það hefið verið gagnlegt í fráfarandi meirihluta að þar væru fjórir flokkar. Á því væri lýðræðisleg áferð og fleiri raddir kæmu að. „Við munum þurfa að ræða okkur niður á lýðræðislega niðurstöðu og ég tel það gagnlegt og lýðræðislegt. Því er gott að það séu fleiri flokkar en færri. Það getur verið faglegt að þurfa að ræða okkur að niðurstöðu. Við ættum að geta fundið málefnalegan samhljóm.“

Dagur sagðist bjartsýnn á að viðræðurnar skiluðu árangri, eiginlega var tónninn í honum sá að vandséð er hvernig þær klúðrist; slík var einingin á blaðamannafundinum.Vísir/Ragnar Visage

Öll sögðu þau að fyrst yrðu málefnin rædd, þau væru það sem mestu skipti og verkaskipting kæmi síðar. Þar hlyti að finnast ásættanleg niðurstaða. Dagur sagðist hafa góða reynslu af því að vinna með Viðreisn og Pírötum, og reyndar Framsóknarflokki einnig frá því að R-listinn var og hét. „Með því að mynda sterkan og góðan meirihluta erum við alls ekki að segja að við ætlum ekki að hlusta á aðra í borgarstjórn, bæði til hægri og vinstri. Reynt að leysa sem flest mál í breiðri sátt.“

Hvers vegna telur reynslulaus Einar sig eiga tilkall til borgarstjórastóls?

Björn Þorláksson á Fréttablaðinu/Hringbraut spurði Einar hreint út hvernig á því stæði að hann, reynslulaus maðurinn af málefnum borgarinnar, sem hlytu að vera flókin, hefði talað þannig að hann ætti allt eins að verða borgarstjóri. 

Fátt getur komið í veg fyrir að þessir flokkar, Samfylking, Framsóknarflokkur, Viðreisn og Píratar myndi meirihluta í borginni og það áður en langt um líður.Vísir/Ragnar Visage

„Góð spurning,“ sagði Einar. Hann sagði að það hlyti að ráðast út frá því hvernig kjósendur ráðstöfuðu atkvæðum sínum. „Ég ætla ekki að úttala mig um það hver eigi að vera borgarstjóri.“

Fundinum lauk með spurningu um hvort óðagot væri að ræða en það væri svo að framkvæmdastjóri Grósku hafi komið af fjöllum þegar blaðamenn mættu á staðinn, hún vissi ekkert að til stæði að halda þar blaðamannafund? Hver ákvað að boða til fundar þarna? Borgarstjórinn ákvað að taka þetta á sig og sagði þau hafa leitað til framkvæmdastjóra Vísindagarða, en ekki Grósku og töldu sig vera með þetta á hreinu. „Og dásamlegt að vera hér, í miðstöð nýsköpunar í borginni.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.