Innlent

Lenti á hausnum vegna vindhviðu en fær bætur

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur, rúmum sjö árum frá því að slysið átti sér stað.
Dómurinn var kveðinn upp í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur, rúmum sjö árum frá því að slysið átti sér stað. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest bótaskyldu veitingarstaðarins Bryggjunnar á Akureyri vegna líkamstjóns sem kona varð fyrir á leið sinni inn á veitingastaðinn í september 2015.

Konan hugðist snæða kvöldverð með fjölskyldu sinni og hélt í útidyrahurð staðarins þegar vindhviða feykti upp hurðinni en við það féll konan aftur fyrir sig niður þrjár tröppur og skall með hnakkann á gangstétt. Varð hún fyrir umtalsverðu líkamstjóni og krafði VÍS, vátryggjanda Bryggjunnar, um bætur sem synjuðu kröfunni.

Deilan snerist að því hvort Bryggjan hafi sýnt af sér gáleysi á slysstaðnum. Fram kemur í dómnum að útidyrahurð Bryggjunnar hafi verið vís til þess að fjúka til en húsið stendur steinsnar frá sjó og opnast hurðin út á við. Þegar lögreglu bar að garði kom í ljós að hurðarpumpa hurðarinnar var ótengd en ágreiningur aðila laut að því hvort hún hafi verið ótengd eða ekki þannig að um sök Bryggjunnar sé að ræða.

Bryggjan bar því fyrir sig að um væri að ræða óhappatilvik og ósannað hafi verið að slys konunnar verði rakið til vanrækslu sinnar, heldur sé um að ræða eigin sök konunnar. Það hafi verið ósannað að hurðarpumpa hurðarinnar sem vindhviða feykti upp og olli í raun tjóninu, hafi verið ótengd þegar slysið átti sér stað þótt hún hafi verið ótengd þegar lögreglu bar að garði.

Héraðsdómur hafnaði hins vegar þessum röksemdum og taldi það standa Bryggjunni nær að sanna þá staðhæfingu sína að pumpan hafi í reynd verið tengd þegar slysið átti sér stað. Hafi þeim ekki tekist sönnun þess og báru því hallann af því.

Var því fallist á það með konunni að VÍS, vátryggjandi Bryggjunnar, skyldi bera ábyrgð á tjóni hennar vegna saknæmrar háttsemi þess síðarnefnda. Konunni var jafnframt greiddur málskostnaður úr hendi Bryggjunnar og fallist á gjafsókn hennar.

Fréttin hefur verið uppfærð. Í fyrstu var greint frá því að veitingarstaðurinn væri Bryggjan brugghús, hið rétta er að um var að ræða Bryggjuna á Akureyri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.