Rússar gerðu upprunalega innrás í Úkraínu úr öllum áttum en sókn þeirra að Kænugarði var stöðvuð. Nú leggja þeir mesta áherslu á að ná tökum á Donbas-hérað og suðurhluta Úkraínu.
Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.
Helstu vendingar:
- Bardagar í austurhluta Úkraínu gætu ráðið örlögum Úkraínu, samkvæmt Oleksandr Motuzyanyk, talsmanni Varnarmálaráðuneytis Úkraínu. Hann sagði í dag að þrýstingurinn á úkraínska hermenn hefði aldrei verið meiri en nú og ástandið í austri væri gífurlega erfitt.
- Úkraínumenn skutu niður rússneska orrustuþotu á dögunum en henni var flogið af fyrrverandi herforingja í rússneska flughernum. Sá hét Kanamat Botashev og dó þegar Su-25 þota hans var skotin niður yfir Luhansk á sunnudaginn.
- Alexei Navalní, einn helsti pólitíski andstæðingur Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, hefur gagnrýnt þann síðarnefnda harðlega í morgun. Hann segir Pútín vera galinn og segir hann hafa vaðið út í heimskulegt stríð þar sem saklausu fólki, bæði frá Úkraínu og Rússlandi, sé slátrað.
- Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir Rússa hyggjast styrkja tengslin við Kína enn frekar, þó hann sé enn opinn fyrir því að endurnýja samskiptin við Vesturlönd, sem hann sakar um að stunda áróður gegn Rússum.
- Lavrov segir stjórnvöld í Rússlandi nú vinna að því að finna áreiðanlega birgja til að versla við og að í framtíðinni muni þau aðeins reiða sig á „áreiðanleg“ ríki til að vera ekki háð Vesturlöndum.
- Hinn afar umdeildi forseti Fillippseyja, Rodrigo Duterte, hefur gagnrýnt Vladimir Pútín Rússlandsforseta fyrir að myrða almenna borgara í Úkraínu. „Ég drep glæpamenn, ég drep ekki börn og eldra fólk,“ sagði Duterte eftir að hafa viðurkennt að báðir hefðu leiðtogarnir verið kallaðir morðingjar.
- Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands hefur lýst yfir neyðarástandi í ríkinu vegna stríðsins í Úkraínu.

Ef vaktin birtist ekki hér að neðan gæti þurft að hlaða síðuna aftur.