Húsnæðisfélagið Blær var formlega sett á fót í dag en félagið mun framleiða og byggja húsnæði á hagkvæmu verði í auknum mæli og fyrir stærri hóp en hefur hingað til verið gert. Félagið er systurfélag Bjargs en það er þó rekið á meiri félagslegum grunni.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að hugmyndin sé að koma með félag sem er á milli markaðarins og félagslega kerfisins.
„Við erum að smíða þetta utan um vonandi að lífeyrissjóðirnir komi að með fjármagn og fjárfesti, og sömuleiðis líka að sveitarfélögin geti þá komið inn með lóðir sem eru þá notaðar í jákvæðum tilgangi, það er að segja að byggja undir húsnæðis- og framfærsluöryggi fólks,“ segir Ragnar.
Skiptir máli hverjir eru að baki
Undirbúningurinn hefur verið í gangi undanfarin ár en um er að ræða samstillt átak Alþýðusambandsins, BSRB og VR.
Í hinu nýja félagi verða engin tekju eða eignarmörk heldur er það byggt á kerfi sem hefur virkað á Norðurlöndunum, þar sem langtímasjónarmið eru í forgrunni og hóflegar arðsemiskröfur gerðar.
Það skipti máli hverjir eru að baki félagsins og hverjir eru með fjármagnið.
„Það hefur alveg sýnt sig að fjárfestar sem fara fram með sambærilegum hætti og þeir gera á mörkuðum eru ekki hæfir til að eiga félög sem að leigja út húsnæði,“ segir Ragnar.
Skortur á langtímasjónarmiðum hingað til
Verkalýðshreyfingin hefur undanfarið varað við ófremdarástandi á leigumarkaði og gerði starfshópur á vegum þjóðhagsráðs tillögur að umbótum í síðustu viku.
Drífa Snædal, formaður ASÍ, segir að með félaginu, sem og Bjargi sem er systurfélag Blævar, sé verkalýðshreyfingin að leggja sín lóð á vogarskálarnar.

„Þetta er hugsað til langs tíma, þetta er ekki hugsað sem ágóði fyrir fjármagnseigendur heldur fyrst og fremst út frá húsnæðisöryggi landsmanna og það bara er hugsun sem hefur vantað,“ segir Drífa.
„Það sem vantar sárlega eru leigufélög sem að ætla sér að vera til langs tíma, sem ætla sér ekki að koma inn á markaðinn, soga út fjármagn af honum og fara annað.“
Í grunninn er ljóst að það þurfi að auka framboð en sömuleiðis þarf að tryggja öryggi leigjenda.
„Þetta er bara eitt stærsta lífskjaramálið, það eru húsnæðismálin. Það er að búa í öruggu húsnæði, það er að vera með húsnæði á viðráðanlegum kjörum, og þetta er eitt skref í því,“ segir Drífa.