Fótbolti

Stöðvaði PSG í fyrra en stóð nú vaktina er AC Milan vann eftir meira en ára­tug

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mike Maignan var magnaður í vetur.
Mike Maignan var magnaður í vetur. EPA-EFE/MATTEO BAZZI

Þegar Gianluigi Donnarumma – landsliðsmarkvörður Ítalíu – ákvað að yfirgefa AC Milan og halda til Parísar voru góð ráð dýr en Donnarumma hafði varið mark AC Milan frá því hann var aðeins táningur. Inn kom Mike Maignan, mögulega bestu kaup AC Milan síðari ára.

AC Milan varð um helgina Ítalíumeistari í fyrsta skipti í 12 ár eftir harða baráttu við nágranna sína í Inter. Hinn margfrægi Scudetto er því áfram í Mílanó-borg og meira að segja áfram á San Siro, mögulega bara hinum megin á leikvanginum.

Mike Maignan, 26 ára gamall franskur markvörður með tvo A-landsleiki á ferilskránni, er ein stærsta ástæða þess að Milan tókst loksins að landa þeim stóra eftir mörg mögur ár. Hann þurfti hins vegar að fylla stærstu skó Mílanó-borgar er hann gekk til liðs við AC Milan. Hann var nefnilega að leysa hinn 23 ára gamla Gianluigi Donnarumma af hólmi.

Donnarumma sem var ein stærsta ástæða þess að Ítalía varð Evrópumeistari síðasta sumar. Hinn 23 ára gamli Donnarumma var vart fermdur er hann lék sinn fyrsta leik fyrir Mílanó-liðið. Alls lék hann 251 leik og hélt 88 sinnum hreinu áður en hann ákvað að söðla um og færa sig til Parísar í leit að titlum.

Honum varð að ósk sinni er París Saint-Germain varð Frakklandsmeistari en Donnarumma hefði eflaust verið til í að vinna Serie A með uppeldisfélaginu.

Eftir að Donnarumma ákvað að yfirgefa Mílanó voru góð ráð dýr. AC Milan hafði endað tímabilið 2020/2021 í 2. sæti en þó 12 stigum á eftir nágrönnum sínum í Inter. Það virtist fjarlægur draumur að skáka Inter án Donnarumma, eða hvað?

Mike Maignan hafði nýverið átt stórkostlegt tímabil með Lille í frönsku úrvalsdeildinni. Lille gerði sér lítið fyrir og varð Frakklandsmeistari þrátt fyrir að allir og amma þeirra hafi búist við því að PSG myndi áfram einoka frönsku deildina.

Þrátt fyrir að vera Frakklandsmeistari og hafa verið valinn besti markvörður deildarinnar kostaði Maignan litlar 13 milljónir evra. AC Milan stökk á það tilboð og viti menn, tæpum tíu mánuðum síðar stendur AC Milan uppi sem Ítalíumeistari og Maignan var valinn besti markvörður Serie A.

Alls hefur Maignan spilað 39 leiki fyrir Milan, fengið á sig 32 mörk og haldið 19 sinnum hreinu. Geri aðrir betur.


Serie A er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 kr. á mánuði. Upplýsingar um beinar útsendingar frá ítalska boltanum má finna hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×