Fótbolti

Tileinkaði Raiola titilinn: „Sagði að ég væri sá eini sem gæti bjargað Milan“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic kveikti sér í vindli eftir að AC Milan varð ítalskur meistari.
Zlatan Ibrahimovic kveikti sér í vindli eftir að AC Milan varð ítalskur meistari. getty/Jonathan Moscrop

Zlatan Ibrahimovic tileinkaði Mino Raiola heitnum, fyrrverandi umboðsmanni sínum, fyrsta Ítalíumeistaratitil AC Milan í ellefu ár.

Milan tryggði sér ítalska meistaratitilinn með 0-3 útisigri á Sassuolo í gær. Öll mörkin komu í fyrri hálfleik. Olivier Giroud skoraði tvö mörk og Franck Kessié eitt. Zlatan kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik.

Svíinn kokhrausti var einnig í síðasta meistaraliði Milan, tímabilið 2010-11. Hann sneri aftur til Milan 2020, ekki síst vegna Raiola sem hvatti hann til að fara aftur til liðsins.

Raiola lést 30. apríl eftir löng veikindi, 54 ára að aldri. Raiola var þekktasti umboðsmaður heims og var meðal annars með Zlatan á sínum snærum. Og Raiola var sænska framherjanum ofarlega í huga eftir að Milan vann titilinn langþráða í gær.

„Ég vil tileinka Mino Raiola titilinn. Ég var nálægt því að fara til Napoli en hann sagði mér að ég væri sá eini sem gæti bjargað Milan,“ sagði Zlatan.

Þrátt fyrir að vera fertugur og hafa glímt við meiðsli í vetur var ekki á Zlatan að heyra að hann ætlaði að leggja skóna á hilluna.

„Ef mér líður vel var þetta ekki síðasti leikurinn minn. Ég þarf að íhuga hvort ég þarf að fara í aðgerð,“ sagði Zlatan sem lék 23 deildarleiki í vetur og skoraði átta mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×