Enski boltinn

Van Basten vill að Ten Hag sæki leikmann til Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romelu Lukaku og Hakim Ziyech fagna marki Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.
Romelu Lukaku og Hakim Ziyech fagna marki Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Getty/Stu Forster

Hollendingar eru mjög spenntir fyrir því að Erik Ten Hag sé að taka við liði Manchester United. Þeir eru líka duglegir að spyrja goðsögnina Marco van Basten um sína skoðun á því sem landi hans eigi að gera.

Það er búist við miklum hreinsunum hjá Manchester United, margir leikmenn eru á förum og þá er búist við því að félagið verði í aðalhlutverki á félagsskiptamarkaðnum í sumar.

Erik Ten Hag gerði frábæra hluti með Ajax og setti í raun saman tvö lið hjá félaginu. Það fyrra fór alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar en eftir það tímabil seldi hollenska félagið allar sínar stærstu stjörnur.

Nú eru sögusagnir um það að Erik Ten Hag gæti verið að reyna að safna gamla bandinu sínu saman á Old Trafford. Miðjumaðurinn Frenkie De Jong og miðvörðurinn Matthijs de Ligt​ hafa báðir verið orðaðir við Manchester United.

Van Basten vill hins vegar að Ten Hag sæki leikmann til Chelsea, leikmann sem fór á kostum undir stjórn hans hjá Ajax.

Þar erum við að tala um Hakim Ziyech. Hann er nú 29 ára gamall og hefur verið hjá Chelsea frá 2020. Á þeim tíma hefur hann unnið Meistaradeildina, Ofurbikar UEFA og heimsmeistarakeppni félagsliða.

Ziyech hefur á sama tíma dregist aftur úr í goggunarröðinni á Stamford Bridge en Van Basten er sannfærður um að hann myndir blómstra undir stjórn Ten Hag.

„Sá sem kemur upp í minn huga er Ziyech. Hann er að spila í Englandi og gæti orðið mjög góður leikmaður fyrir Manchester United undir stjórn Eriks,“ sagði Marco van Basten á Ziggo Sport.

Erik Ten Hag er hættur sem stjóri Ajax og þegar byrjaður að vinna hjá Manchester United. Nú er bara spurning um hvaða fyrrum leikmaður hans hjá Ajax verður sá fyrsti til að endurnýja kynnin á Old Trafford.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.