Enski boltinn

Segir að stressaðir eigi að vera heima og að liðið eigi Meistaradeildina ekki skilið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Granit Xhaka var allt annað en kátur eftir tap Arsenal gegn Newcastle í gærkvöldi.
Granit Xhaka var allt annað en kátur eftir tap Arsenal gegn Newcastle í gærkvöldi. Stuart MacFarlane/Arsenal FC via Getty Images

Granit Xhaka, leikmaður Arsenal, gagnrýndi liðsfélaga sína eftir 2-0 tap liðsins gegn Newcastle í gærkvöldi. Hann segir að stressaðir leikmenn eigi að vera heima hjá sér og að liðið eigi ekki skilið að fara í Meistaradeildina miðað við frammistöðuna í leiknum.

Miðjumaðurinn var greinilega sár og svekktur eftir tapið, en sigur hefði lyft liðinu aftur upp fyrir erkifjendur þeirra í Tottenham í baráttunni um Meistaradeildarsæti. Hann segir þó að frammistaða gærkvöldsins sýni að liðið hafi ekki ráðið við pressuna.

„Ef einhver er ekki tilbúinn í leikinn, vertu þá heima,“ sagði Svisslendingurinn.

„Það skiptir ekki máli hvað þú ert gamall. Ef þú ert stressaður, vertu þá á bekknum eða heima hjá þér. Við þurfum menn sem mæta til að spila. Þetta var einn mikilvægasti leikur tímabilsins fyrir okkur og við erum mjög vonsviknir fyrir hönd þeirra sem gerðu sér ferð á völlinn.“

Vonir Arsenal um Meistaradeildarsæti hanga nú á bláþræði, en liðið þarf sigur gegn Everton í lokaumferðinni og treysta á að á sama tíma tapi Tottenham gegn föllnu liði Norwich. Xhaka gerir sér grein fyrir því að vonin er veik, en hann er þó ekki tilbúinn að gefast upp alveg strax.

„Við vildum sýna flotta frammistöðu en það gerðist ekki. Fólk talar alltaf um leiðtoga. Við erum ekki að spila tennis, við erum að spila fótbolta. Ef einhver ræður ekki við pressuna á hann að vera heima hjá sér.“

„Við getum ekki mætt og spilað eins og við gerðum. Við litum mjög illa út. Skipulagið var allt annað en við spiluðum.“

„Þeir keyrðu yfir okkur frá fyrstu mínútu. Þegar þú spilar svona áttu ekki skilið að spila í Meistaradeildinni,“ sagði Xhaka.

„Ef Tottenham tapar og við vinnum. Maður veit aldrei í fótbolta. Við eigum enn von. Fyrir leikinn var þetta í okkar höndum, en nú er þetta allt annar leikur,“ sagði Xhaka að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×