Erlent

Bein útsending: Leyniþjónustumálanefnd fundar um fljúgandi furðuhluti

Samúel Karl Ólason skrifar
Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa ekki áhyggjur af geimverum, eftir því sem best er vitað, heldur óttast þeir að önnur ríki standi þeim framar í þróun flugvéla og dróna.
Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa ekki áhyggjur af geimverum, eftir því sem best er vitað, heldur óttast þeir að önnur ríki standi þeim framar í þróun flugvéla og dróna. Getty

Undirnefnd Leyniþjónustumálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings heldur í dag fund um fljúgandi furðuhluti. Háttsettir embættismenn í leyniþjónustum og Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna muni sitja fyrir svörum en hluti fundarins verður í beinni útsendingu.

Mikil eftirvænting er eftir fundinum en þetta er í fyrsta sinn sem opinn þingnefndarfundur um FFH eru haldinn í Bandaríkjunum í áratugi.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur á undanförnum árum birt myndbönd af FFH og í fyrra var gefin út skýrsla um óþekkta hluti sem hefðu sést á flugi undanfarna áratugi.

Hér er vert að taka fram að ekkert af því sem hefur verið birt hingað til gefur til kynna að geimverur hafi verið á ferðinni yfir jörðinni. Í skýrslunni sem gefin var út í fyrra kom einnig fram að furðuhlutirnir væru líklegast ekki heldur háþróuð farartæki frá Rússlandi eða Kína, þó það hafi á sínum tíma verið talið mögulegt.

Það að önnur ríki standi þeim framar í þróun flugvéla og dróna er helsta áhyggjuefni ráðamanna í Bandaríkjunum þegar kemur að fljúgandi furðuhlutum.

CNN hefur til að mynda eftir yfirlýsingu frá André Carson, þingmanni Demókrataflokksins og formanni nefndarinnar, að bandaríska þjóðin eigi það skilið að leiðtogar hennar taki mögulegar og illskiljanlegar ógnir gegn Bandaríkjunum alvarlega.

Fundur nefndarinnar hefst klukkan eitt að íslenskum tíma. Hann verður opinn fyrstu þrjár klukkustundirnar. Eftir það verður slökkt á útsendingunni og fólk rekið úr salnum, svo þeir sem sitja fyrir svörum geti svarað um leynileg málefni.

Áhugasamir geta fylgst með fyrri hluta fundarins í spilaranum hér að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×