Inter frestar fagnaðar­höldum ná­granna sinna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lautaro Martínez fagnar öðru af mörkum sínum.
Lautaro Martínez fagnar öðru af mörkum sínum. EPA-EFE/Fabio Murru

Inter vann 3-1 útisigur á Cagliari í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Sigurinn þýðir að það ræðst í síðustu umferð hver verður Ítalíumeistari en AC Milan er með tveggja stiga forystu á Inter fyrir lokaumferðina.

Milan Škriniar hélt hann hefði komið Inter yfir snemma leiks en markið var á endanum dæmt þar sem boltinn fór í hendina á varnarmanninum í aðdraganda marksins. Það var hins egar ekki hægt að dæma mark Matteo Darmian af þegar 25 mínútur voru liðnar.

Vængbakvörðurinn Darmian skilaði sér þá inn í teig og stangaði fyrirgjöf Ivan Perišić – vængbakvarðarins hinum megin – í netið. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks og staðan 0-1 er liðin gengu til búningsherbergja.

Þegar sex mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fékk Lautaro Martínez frábæra sendingu frá Nicolò Barella og þrumaði boltanum í netið. Staðan orðin 2-0 og meistararnir í fínum málum. Aðeins tveimur mínútum síðar minnkaði Charalampos Lykogiannis muninn og leikurinn allt í einu galopinn.

Þegar fimm mínútur voru til leiksloka tryggði Martínez sigur gestanna þegar hann renndi boltanum í netið eftir sendingu Roberto Gagliardini. Staðan orðin 1-3 og reyndust það lokatölur leiksins.

Þegar ein umferð er eftir af Serie A þarf Inter að treysta á að Sassuolo nái í sigur gegn AC Milan og þá þurfa ríkjandi meistarar Inter að leggja Sampdoria. Staðan sem stendur þannig að AC Milan er með 83 stig en Inter 81.


Serie A er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 kr. á mánuði. Upplýsingar um beinar útsendingar frá ítalska boltanum má finna hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira