Enski boltinn

Coutinho nær samkomulagi við Villa

Atli Arason skrifar
 Steven Gerrard og Philippe Coutinho ná vel saman.
 Steven Gerrard og Philippe Coutinho ná vel saman. Getty Images

Philippe Coutinho er sagður hafa náð samkomulagi við Aston Villa um kaup og kjör til að gera félagaskipti hans frá Barcelona til Villa varanleg.

Kaupverðið á leikmanninum er þó talið vera helsta ágreiningsefnið á milli liðanna eins og er. Barcelona keypti Coutinho á 105 milljónir punda frá Liverpool á sínum tíma en spænska liðið vill fyrst og fremst losna við Coutinho af launaskrá liðsins til að hafa pláss fyrir nýja leikmenn. Brassinn þénar um 300 þúsund pund á viku hjá Barcelona.

Coutinho hefur verið á láni hjá Aston Villa síðan í janúar en í lánssamningnum er 33 miljóna punda kaupákvæði. Breskir miðlar greindu frá því í dag að Villa hefði gert Barcelona tilboð upp á u.þ.b. 12 milljónir punda.

Coutinho byrjaði ferill sinn hjá Aston Villa afar vel en hann skoraði fjögur mörk og lagði upp önnur þrjú í fyrstu átta leikjum sínum fyrir liðið. Coutinho hefur þó hvorki skorað né lagt upp mark í síðustu átta leikjum sínum fyrir Villa. Þrátt fyrir það vill Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Villa, ólmur fá Coutinho til liðsins.

Gerrard fær í sumar í fyrsta skipti heilt undirbúningstímabil með Villa til að koma hugmyndafræði sinni almennilega til skila og það verður fróðlegt að sjá hvort Coutinho verði hluti af uppbyggingastarfi Gerrard hjá Aston Villa. Everton, Tottenham, Arsenal og Newcastle eru á meðal þeirra liða sem hafa einnig áhuga að fá Coutinho í sínar raðir fyrir næsta tímabil en leikmaðurinn er sjálfur sagður hafa mestan áhuga fyrir því að spila undir stjórn Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×