Enski boltinn

Styttir sumarfrí leikmanna Manchester United

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn Man. Utd eiga að mæta á Carrington æfingasvæðið fyrr en til stóð.
Leikmenn Man. Utd eiga að mæta á Carrington æfingasvæðið fyrr en til stóð. Getty/John Peters

Erik ten Hag hefur ákveðið að stytta sumarfrí leikmanna Manchester United um tvær vikur. Hann telur sig þurfa meiri tíma til að bæta líkamlegt hreysti leikmannanna.

Þetta fullyrðir enska götublaðið Daily Mirror sem segir að United-menn hafi upphaflega átt að koma saman til æfinga fyrir nýtt tímabil 4. júlí. Nú eigi sumarfríi þeirra að ljúka 20. júní, fjórum vikum eftir að yfirstandandi leiktíð lýkur með leik við Crystal Palace 22. maí.

Samkvæmt Mirror er Ten Hag á því að hann þurfi meiri tíma til að venja United-menn, eða að minnsta kosti hluta hópsins, við að spila þá tegund af orkufrekum fótbolta sem hann kýs.

Ten Hag er enn starfandi stjóri Ajax í Hollandi en tekur formlega til starfa hjá United í næsta mánuði. Hann mun þó í þessari viku eiga samtöl við leikmenn United í gegnum Zoom.

Mirror segir að Ten Hag hafi horft á síðustu leiki United og ekki litist á blikuna varðandi líkamshreysti leikmanna. Hann sé sannfærður um að rekja megi ástæður slakrar frammistöðu United í mörgum leikjum í vetur til þess að leikmenn séu ekki í nógu góðu formi.

Fyrsti leikur United undir stjórn Ten Hags er á móti erkifjendunum í Liverpool í Taílandi 12. júlí.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.