Enski boltinn

Bauð tíu ára flóttamanni á æfingu með Englandsmeisturunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Oleksandr Zinchenko á æfingu með Manchester City.
Oleksandr Zinchenko á æfingu með Manchester City. Tom Flathers/Manchester City FC via Getty Images

Knattspyrnumaðurinn Oleksandr Zinchenko, leikmaður Englandsmeistara Manchester City, segist hafa boðið tíu ára úkraínskum strák sem þurfti að flýja heimaland sitt eftir innrás Rússa á æfingu með liðinu svo drengurinn gæti gleymt áhyggjum sínum um stund.

Þessi 25 ára leikmaður birti myndir á Instagram-reikningi sínum þar þeir félagarnir æfa sig í fótbolta. Drengurinn er enn af tveimur milljónum barna sem hafa þurft að flýja heimaland sitt eftir innrás Rússa sem hófst fyrir rúmum tveimur mánuðum.

„Þetta er Andrei. Hann er tíu ára gamall.“  „Hann er nú þegar öruggur“ skrifaði Zinchenko í færslu sinni. „Eins og flestir Úkraínumenn var hann neyddur til þess að yfirgefa heimili sitt vegna stríðsins.“

Samkvæmt heimildum Sameinuðu þjóðanna hafa yfir 12 milljón manns yfirgefið landið eftir að innrásin hófst þann 24. febrúar síðastliðinn.

„Fyrir 75 dögum dreymdi þennan dreng um að verða fótboltamaður og hann æfði áhyggjulaus með liðinu sínu,“ skrifaði Zinchenko einnig.

„Í dag á hann aðeins einn draum - hann dreymir um frið í landinu okkar. Hann dreymir um ró. Hann dreymir um venjulegt líf heima hjá sér.“

„Það særir mig mjög mikið að vegna stríðsins þá eru mörg börn eins og Andrei í Úkraínu í dag sem eru svipt æskunni og jafnvel verra - lífinu.“

„Bráðum munu öll börn geta upplifað áhyggjulausa æsku, fulla af æskudraumum og jákvæðum tilfinningum. Eitthvað sem Andrei fann fyrir í nokkrar mínútur í dag á æfingu hjá Manchester City,“ skrifaði Zinchenko að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×