Enski boltinn

Klopp: „Þessi kaup munu setja ný viðmið“

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland er aðeins 21 árs en þegar orðinn einn albesti framherji heims.
Erling Haaland er aðeins 21 árs en þegar orðinn einn albesti framherji heims. Getty/Adam Pretty

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir það ekki eiga að koma á óvart að Manchester City haldi áfram að þróast sem knattspyrnulið. Kaup á Erling Haaland setji hins vegar ný viðmið.

Samkvæmt heimildum Sky Sports hefur norski stjörnuframherjinn Haaland þegar gengist undir vel heppnaða læknisskoðun í Belgíu, vegna væntanlegra kaupa City á honum frá Dortmund. Samkomulag hefur náðst um kaup og kjör og The Athletic sagði í vikunni að líklegast myndi City tilkynna um kaupin á Haaland í þessari viku.

„Ég skrifaði undir nýjan samning [við Liverpool] vitandi það að City myndi ekki hætta að þróast. City mun ekki ráða því hvort að við verðum hamingjusamir eða ekki. Þetta snýst um okkur og hvað við gerum,“ sagði Klopp í viðtali við Sky Sports.

„Maður fær svo mörg tækifæri og það eru svo margar leiðir til að vinna fótboltaleiki og við þurfum bara að finna eina. Það er auðvitað vel mögulegt fyrir okkur,“ sagði Klopp.

Haaland fer til City fyrir 75 milljónir evra en hann er með klásúlu í samningnum við Dortmund sem gerir hann falan fyrir það verð. Ljóst er að hann mun fá svimandi há laun hjá nýjum vinnuveitendum.

„Ef að Erling Haaland fer þangað [til liðs við City-menn] þá mun það klárlega ekki veikja liðið. Ég held að það sé búið að segja nóg um þessi viðskipti. Ég veit að það er mikið talað um peningahliðina en við skulum bara orða það þannig að þessi kaup munu setja nýja standarda,“ bætti Liverpool-stjórinn við.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.