Erlent

Þrír látnir eftir axarárás í Ísrael

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þrír féllu í árásinni í kvöld.
Þrír féllu í árásinni í kvöld. Getty/Nir Keidar

Þrír hafa verið drepnir og fleiri eru særðir eftir að axarárás var gerð í borginni Elad í Ísrael í kvöld. Lögregla segir að um mögulega hryðjuverkaárás sé að ræða.

Ísraelskir fréttamiðlar hafa greint frá því að tveir menn hafi ráðist á vegfarendur í almenningsgarði í Elad vopnaðir exi og hnífum. Mannanna er nú leitað og lögregla hefur sett upp vegatálma víða um borgina og leitar í bílum sem hafa verið stoppaðir. Í dag er þjóðhátíðardagur Ísrael og stofnun ísraelska ríkisins fagnað.

Borgaryfirvöld í Elad hafa fyrirskipað fólki að halda sig innandyra í völd. Fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins um málið að meirihluti íbúa borgarinnar séu strangtrúaðir gyðingar (e. ultra-Orthodox). 

„Gleðin sem fylgir þjoðhátíðardegi okkar hætti snögglega. Árásin í Elad er hjartanu og sálinni áfall,“ skrifar Yair Lapid utanríkisráðherra Ísrael á Twitter. 

Undanfarnar vikur hefur árásum á ísraelska gyðinga fjölgað gífurlega en fleiri hafa ekki fallið í slíkum árásum í Ísrael síðan 2006. Fram kemur í frétt BBC að flestar árásanna hafi Palestínumenn eða ísraelskir arabar framið.

Sextán Ísraelar, þar á meðal einn lögreglumaður af ísraelskum-arabískum uppruna, hafa fallið og tveir Úkraínumenn. Árásirnar hafa allar verið í Ísrael og á Vesturbakkanum. 

Ísraelsk stjórnvöld hafa svarað árásahrinunni með því að framkvæma áhlaup á palestínska bæi, þar sem átök hafa brotist út og minnst 26 fallið, þar af almennnir borgara.

Ísrael var stofnað þann 14. maí 1948 en þjóðhátíðardagurinn fellur ekki alltaf á sama dag á hverju ári þar sem miðað er við hebreska dagatalið. Þann 15. maí ár hvert syrgja Palestínumenn stofnun ríkisins en dagurinn kallast al-Naqba, sem á arabísku þýðir hamfarir eða stórslys.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×