Frankfurt og Rangers í úr­slit Evrópu­deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rafael Borre skoraði markið sem drap vonir Eintracht Frankfurt.
Rafael Borre skoraði markið sem drap vonir Eintracht Frankfurt. Harry Langer/Getty Images

Eintracht Frankfurt vann West Ham United 1-0 í kvöld og tryggði sér þar með farseðilinn í úrslit Evrópudeildarinnar í fótbolta. Rangers vann frækinn 3-1 sigur á RB Leipzig og er því einnig komið í úrslit.

Frankfurt vann leikinn í Lundúnum 2-1 og var því með yfirhöndina er flautað var til leiks í kvöld. Aaron Cresswell reyndist skúrkur West Ham í kvöld en hann lét reka sig af velli strax á 17. mínútu þegar hann braut af sér sem aftasti maður.

Innan við tíu mínútum síðar kom Rafael Borre heimamönnum 1-0 yfir og segja má að úrslitin hafi verið ljós þá og þegar. Heimamenn voru mun meira með boltann og unnu nokkuð öruggan sigur. Lokatölur í kvöld 1-0 og Frankfurt vinnur einvígið því 3-1.

Í Glasgow í Skotlandi var RB Leipzig í heimsókn. Gestirnir unnu fyrri leik liðanna 1-0 en það dugði skammt gegn ógnarsterku Rangers-liði. Markaóði hægri bakvörðurinn James Tavernier kom Rangers yfir á 19. mínútu og aðeins sex mínútum síðar hafði Glen Kamara komið Skotunum 2-0 yfir.

Það ætlaði allt um koll að keyra á Ibrox-vellinum í Glasgow og til að verja forystu sína sóttu heimamenn þrjú gul spjöld áður en fyrri hálfleikur var úti. Gestirnir þurftu aðeins eitt mark til að koma leiknum í framlengingu. Það mark kom á 71. mínútu þegar einn eftirsóttasti leikmaður Evrópu - Christopher Nkunku – minnkaði muninn.

Heimamenn létu það ekki á sig fá og John Lundstram tryggði sigur Rangers með marki tíu mínútum síðar. Lokatölur 3-1 og Rangers mætir Frankfurt í úrslitum Evrópudeildarinnar árið 2022.

Rangers er á leið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.Mark Runnacles/Getty Images

Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.