Enski boltinn

Kallaði eigin leik­menn kar­rí­ætur og sjálfs­morðs­sprengju­menn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
John Yems er sakaður um að kynþáttaníða eigin leikmenn.
John Yems er sakaður um að kynþáttaníða eigin leikmenn. getty/Pete Norton

Crawley Town, sem er í 12. sæti ensku D-deildarinnar, hefur sent knattspyrnustjórann John Yems í leyfi meðan rannsókn enska knattspyrnusambandsins á kynþáttafordómum hans í garð eigin leikmanna stendur yfir.

Daily Mail greinir frá því að Yems hafi beitt ýmsa leikmenn Crawley kynþáttafordómum. Hann kallaði asíska leikmenn liðsins meðal annars sjálfsmorðssprengjumenn, hryðjuverkamenn og karríætur. Yems sagði einnig einum ungum leikmanni að hann ætti að forðast að vera með bakpoka í lestinni á leið heim af æfingu því aðrir farþegar gætu haldið að hann myndi sprengja sig, og þá, í loft upp.

Yems sagði ennfremur hörundsdökkum leikmönnum Crawley að nota annan búningsklefa en aðrir leikmenn liðsins og bannaði tveimur leikmönnum af minnihlutahópi að æfa án nokkurar ástæðu. Þá notaði hann n-orðið ítrekað, kallaði ungan svartan leikmann Zulu-stríðsmann og gerði grín að leikmanni af kýpverskum ættum.

Sjö leikmenn Crawley kvörtuðu undan framkomu Yems. Skömmu síðar settu bandarískir eigendur félagsins hann til hliðar. Yems hafnar ásökunum en neitaði að tjá sig um málið þegar Daily Mail leitaði eftir því.

Hinn 62 ára Yems hefur stýrt Crawley síðan í desember 2019. Liðið hefur tapað öllum þremur leikjum sínum síðan hann var sendur í leyfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×