Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn tapar þremur fulltrúum

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Samfylkingin mælist stærst með 23 prósenta fylgi en dalar aðeins á milli kannana.
Samfylkingin mælist stærst með 23 prósenta fylgi en dalar aðeins á milli kannana. Vísir/Vilhelm

Meirihlutinn í Reykjavík heldur velli samkvæmt nýrri könnun Maskínu og fylgi Sjálfstæðisflokksins lækkar um fimm prósentustig milli mánaða.

Könnun Maskínu var gerð frá 8. apríl til 2. maí. Samfylkingin mælist stærst með 23 prósenta fylgi en dalar aðeins á milli kannana. Sjálfstæðisflokkurinn er næst stærstur með rúm tuttugu prósent en tapar þó mestu fylgi - eða fimm prósentustigum á milli kannana.

Píratar bæta vel við sig og standa í rúmum fjórtan prósentum. Fylgi Framsóknar dalar aðeins á milli kannana og er í tólf prósent,  sem þó er margfalt meira en í síðustu kosningum. Viðreisn hækkar úr tæpum sex prósentum upp í níu prósent og Vinstri græn fara úr 4,4 prósentum í tæp sjö prósent.

Fylgi Sósíalista lækkar lítillega á milli kannana, úr rúmum átta prósentum í sjö prósent. Flokkur fólksins er á svipuðu róli í könnunum og mælist með fjögur prósent en Miðflokkurinn fer úr tæpu prósentu í rúm tvö prósent.

Samfylkingin tapar samkvæmt þessu einum borgarfulltrúa og er með sex inni. Sjálfstæðisflokkurinn tapar mestu og færi úr átta fulltrúum í fimm. 

Framsókn mælist með þrjá nýja fulltrúa inni og Píratar bæta við sig tveimur og mælast með fjóra borgarfulltrúa. Þá heldur Viðreisn sínum tveimur fulltrúum og Vinstri Græn, Sósíalistar og Flokkur fólksins mælast með einn fulltrúa.

Miðflokkur tapar hins vegar sínum eina fulltrúa samkvæmt könnuninni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×