Enski boltinn

Roon­ey stefnir á að vera á­fram með Der­by

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Wayne Rooney ætlar sér að koma Derby County upp á nýjan leik.
Wayne Rooney ætlar sér að koma Derby County upp á nýjan leik. Nigel Roddis/Getty Images

Wayne Rooney, þjálfari Derby County, stefnir á að vera áfram við stjórnvölin þó félagið hafi fallið niður í ensku C-deildina. Hann hefur verið orðaður við lið í ensku úrvalsdeildinni sem og í B-deildinni.

Þrátt fyrir að Derby hafi fallið þá má segja að Rooney hafi unnið þrekvirki á tímabilinu. Alls var 21 stig tekið af liðinu vegna bágrar fjárhagsstöðu þess og þá þurfti það að selja allt sem var ekki neglt niður.

Liðið hefur alls unnið sér inn 52 stig á leiktíðinni en stigafrádrátturinn gerði það að verkum að liðið átti nær alltaf við ofurefli að etja. Fór það svo að liðið féll þegar enn voru tvær umferðir eftir af ensku B-deildinni.

Hinn 36 ára gamli Rooney hafði fengið mikið hrós fyrir spilamennsku liðsins og einfaldlega að vera áfram hjá félaginu þar sem til að mynda hans fyrrum félag Everton hafði sóst eftir kröftum hans. Undanfarið hefur hann verið orðaður við þjálfarastöðu Burnley sem og liða í B-deildinni en hann virðist ætla að vera áfram hjá Derby og reyna koma Hrútunum upp í næstefstu deild á nýjan leik.

„Maður getur ekkert gert í sögusögnum, ég skil það. Ég hef áður sagt að þetta er mikið hrós fyrir mig og starfsfólks félagsins vegna allrar þeirra vinnu sem við höfum lagt á okkur. Ég á hins vegar ár eftir af samningi mínum og vil reyna að koma félaginu á betri stað. Ég er hér og er tilbúinn að reyna koma félaginu aftur upp í Championship-deildina,“ sagði Rooney þegar þetta var borið undir hann.

Það virðist vera að rofa til í eigenda málum Derby og mögulega getur Rooney stillt upp mun sterkara liði í C-deildinni á næstu leiktíð heldur en honum tókst að gera í vetur.


Championship-deildin er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. EFL Championship er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×