Enski boltinn

Jarðeigandi á Íslandi með tilboð í Chelsea

Sindri Sverrisson skrifar
Framtíð Chelsea er í óvissu en fjögur tilboð hafa borist í félagið.
Framtíð Chelsea er í óvissu en fjögur tilboð hafa borist í félagið. Getty

Breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe, sem þekktur er hérlendis fyrir jarðakaup sín, hefur bæst í hóp þeirra sem lagt hafa fram tilboð í enska knattspyrnufélagið Chelsea.

Rússinn Roman Abramovich setti Chelsea á sölu áður en bresk yfirvöld ákváðu að fyrsta allar eigur hans á Bretlandseyjum í mars, vegna meintra tengsla hans við Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Ratcliffe er eigandi fyrirtækisins Ineos sem er eitt stærsta fyrirtæki heims á sviði efnaiðnaðar. Tilboðið hljóðar upp á 4,25 milljarða punda, samkvæmt frétt BBC, sem samsvarar um 700 milljörðum króna. 

Ætlunin er að þar af færi 1,75 milljarður punda í fjárfestingar hjá Chelsea á tíu ára tímabili en 2,5 milljarðar til stuðnings fórnarlamba stríðsins í Úkraínu.

Áður höfðu þrír aðilar lagt fram tilboð fyrir um tvo milljarða punda, samkvæmt frétt BBC.

„Þetta er breskt tilboð í breskt félag,“ segir í yfirlýsingu Ineos í dag.

„Við munum fjárfesta í Stamford Bridge til að gera hann að heimsklassaleikvangi, sem sæmir Chelsea FC. Þetta verður gert með þannig hætti að við þurfum ekki að flytja frá heimili Chelsea og eiga á hættu að missa stuðning tryggra stuðningsmanna.

Við munum halda áfram að fjárfesta í liðinu til að tryggja að við eigum fyrsta flokks leikmannahóp með bestu leikmenn heims, þjálfara og starfslið, í bæði karla- og kvennaboltanum,“ segir í yfirlýsingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×