Englandsmeistararnir endurheimtu toppsætið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Phil Foden og Gabriel Jesus fagna marki þess síðarnefnda.
Phil Foden og Gabriel Jesus fagna marki þess síðarnefnda. Michael Regan/Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City endurheimtu toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar með öruggum 4-0 útisigri gegn fallbaráttuliði Leeds í kvöld.

Gestirnir komust yfir strax á 13. mínútu með marki frá Rodri þegar hann skallaði aukaspyrnu Phil Foden í netið. Þrátt fyrir nokkrar ágætis tilraunir heimamanna í Leeds reyndist þetta eina mark fyrri hálfleiks og staðan því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Það var svo Nathan Ake sem tvöfaldaði forystu meistarana á 54. mínútu þegar hann stýrði skalla frá Ruben Dias í netið áður en Gabriel Jesus skoraði þriðja mark City á 78. mínútu.

Það var svo Fernandinho sem gerði gjörsamlega út um leikinn með bylmingsskoti í uppbótartíma.

Niðurstaðan varð því 4-0 útisigur City og Englandsmeistararnir tylla sér á topp ensku úrvalsdeildarinnar á ný. Liðið er með 83 stig þegar fjórar umferðir eru eftir, einu stigi meira en Liverpool sem situr í öðru sæti.

Leeds situr hins vegar í 17. sæti deildarinnar með 34 stig, fimm stigum fyrir ofan Everton sem er í fallsæti, en Everton á tvo leiki til góða.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.