Enski boltinn

Pogba líklega búinn að spila sinn síðasta leik fyrir United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paul Pogba gengur af velli gegn Liverpool, líklega hans síðasta leik í búningi Manchester United.
Paul Pogba gengur af velli gegn Liverpool, líklega hans síðasta leik í búningi Manchester United. getty/Chris Brunskill

Franski miðjumaðurinn Paul Pogba hefur líklega spilað sinn síðasta leik fyrir Manchester United. Hann meiddist í leiknum gegn Liverpool á þriðjudaginn og spilar væntanlega ekki meira á þessu tímabili.

Pogba fór af velli eftir tíu mínútur í 4-0 tapinu fyrir Liverpool vegna meiðsla á hæl. Ralf Rangnick, bráðabirgðastjóri United, greindi frá því á blaðamannafundi í dag að Pogba þyrfti að minnsta kosti fjórar vikur til að jafna sig af meiðslunum. United á fimm leiki eftir á tímabilinu, sá síðasti er gegn Crystal Palace á Selhurst Park 22. maí.

„Það er mjög ólíklegt að hann spili aftur áður en tímabilið endar. Læknirinn sagði mér að það tæki í besta falli fjórar vikur að jafna sig og þar sem síðasti leikurinn á tímabilinu er undir lok maí finnst mér mjög líklegt að hann spili ekki meira,“ sagði Rangnick.

Samningur Pogbas við United rennur út eftir tímabilið og búist er við að hann rói þá á önnur mið. Franski heimsmeistarinn hefur því að öllum líkindum spilað sinn síðasta leik fyrir United.

Rangnick getur þó glaðst yfir því að Raphaël Varane, Scott McTominay og Cristiano Ronaldo eru klárir í slaginn á ný og geta verið með í leiknum gegn Arsenal í hádeginu á morgun.

United er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 54 stig, þremur stigum á eftir Tottenham og Arsenal sem eru í sætunum fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.