Erlent

Aðstoðarráðherra segir af sér vegna veislu­halda

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
David Wolfson hefur ákveðið að segja af sér vegna veisluhaldanna.
David Wolfson hefur ákveðið að segja af sér vegna veisluhaldanna. AP/Twitter

Aðstoðarráðherra í dómsmálaráðuneyti Bretlands hefur ákveðið að segja af sér vegna veisluhalda í Downingstræti. Veisluhöldin voru haldin á meðan Covid faraldrinum stóð. Stjórnarandstæðingar hafa gagnrýnt veisluhöldin harðlega og krafist afsagnar forsætisráðherra og fjármálaráðherra.

David Wolfson aðstoðarráðherra segir að hegðun Boris Johnson forsætisráðherra, auk annarra sem viðstaddir voru veisluhöldin, hafi verið óásættanleg. Wolfson er fyrsti ráðherrann sem segir af sér vegna málsins en hann kveðst ekki hafa annarra kosta völ. 

„Það er rangt að leiða hegðun forsætisráðherra hjá sér. Veisluhöldin voru óréttlætanleg og þá sérstaklega í því ljósi að flestir almennir borgarar hafi farið að sóttvarnareglum. Sumir voru sektaðir og aðrir sóttir til saka fyrir það sem virðast hafa verið léttvægari og minni brot en veisluhöldin,“ segir Wolfson.

Afsögn Wolfson gæti haft áhrif á stjórnarsetu forsætisráðherra. Nigel Mills, þingmaður íhaldsflokksins í Bretlandi, sagði í gær að hann hygðist leggja fram vantrauststillögu á hendur Johnson vegna veisluhaldanna.

Wolfson sagði í bréfi til forsætisráðherra í vikunni að allir ættu að vera jafnir í réttarríki: „Það er grundvallarregla í stjórnskipun réttarríkis að allir séu jafnir fyrir lögum. Ekki bara almennir borgarar heldur einnig ríkið sjálft.“ 

Þá gagnrýnir Wolfson einnig viðbragðsleysi ríkisstjórnarinnar eftir veisluhöldin.

Forsætisráðherra þakkaði Wolfson fyrir vel unnin störf og kvaðst harma málalokin, segir í frétt Guardian um málið.

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar stóð að Wolfson væri dómsmálaráðherra. Það er ekki rétt. Dominic Raab er dómsmálaráðherra. Wolfson gegndi embætti aðstoðarráðherra í dómsmálaráðuneytinu. Fyrirsögn og texta í fréttinni hefur verið breytt til samræmis við þetta.


Tengdar fréttir

Johnson og Sunak verða sektaðir vegna veisluhaldanna

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands, verða sektaðir vegna veisluhalda í Downingstræti á meðan Covid faraldrinum stóð en þetta staðfestir talsmaður ríkisstjórnarinnar við breska fjölmiðla. Stjórnarandstæðingar krefjast afsagnar þeirra. 

Fimm nánir aðstoðarmenn Borisar segja upp

Fjórir háttsettir starfsmenn forsætisráðuneytis Bretlands hafa sagt upp störfum í kjölfar þess að bráðabirgðaniðurstöður skýrslu um partíhald að Downingstræti tíu á tímum samkomutakmarkana voru birtar. Þar á meðal eru starfsmannastjóri ráðuneytisins og einkaritari Borisar Johnson, forsætisráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×