Erlent

Mó­tmæla tveggja vikna út­göngu­banni í Sjang­hæ með því að öskra út um gluggann

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Útgöngubann hefur varið frá 28. mars.
Útgöngubann hefur varið frá 28. mars. ap

Aldrei hafa fleiri tilfelli kórónuveirunnar greinst í Sjanghæ í Kína. Útböngubann hefur verið í borginni í tvær vikur þrátt fyrir að flestir hinna smituðu séu einkennalausir. Íbúar segja hættu á að fólk deyi úr hungri.

Faraldur kórónuveirunnar leikur íbúa Kínversku borgarinnar Sjanghæ grátt, en aldrei hafa tilfelli veirunnar verið jafn mörg og í yfirstandandi bylgju og greinist metfjöldi smitaðra á degi hverjum.

Lang flestir einkennalausir

26 milljónir búa í Sjanghæ. Á síðasta sólarhring greindust yfir 26 þúsund íbúar með Covid19. Af þeim eru 25 þúsund sagðir einkennalausir.

Íbúar borgarinnar búa við harðar sóttvarnaaðgerðir en útgöngubann hefur verið í borginni síðan þann 28. mars, eða í tvær vikur. Íbúar segja ómögulegt að panta mat í útgöngubanninu vegna álags og telja hættu á að fólk deyi úr hungri.

Í myndbandinu má sjá hvernig ástandið var í vikunni þegar íbúar börðust um vörur.

Yfirvöld í Sjanghæ segjast í viðtali við AP fréttaveituna tryggja íbúum mat með heimsendingu. Sjálfboðaliðar frá öðrum löndum hafa hjálpað til við heimsendingar á mat og lyfjum vegna útgöngubannsins, en íbúar Sjanghæ segja það ekki duga til.

Öskra út um gluggann

Hér sjást starfsmenn verslunar tína til pantanir sem fara í heimsendingu.

„Útgöngubann hefur verið í gildi í Pudong um nokkurt skeið og margir búa við skort. Einkum er skortur á mjólkurdufti og bleyjum,“ sagði Bie Rui, verslunarstjóri Mother and baby shop.

Það tekur síðan starfsmanninn yfir fjóra tíma að keyra pöntunina á áfangastað.

Fjölmiðlamaðurinn Patric Madrid birti myndband á Twitter fyrir helgi þar sem íbúar Sjanghæ öskra út um gluggann til þess að mótmæla útgöngubanninu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×